Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Athafnamenn kaupa Eiða - staðurinn lifnar við

23.09.2021 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Tveir athafnamenn að austan ætla að kaupa Eiðajörð og byggingar gamla alþýðuskólans af Landsbankanum og hefur bankinn samþykkt kauptilboð þeirra. Annar þeirra segir að markmiðið sé að koma staðnum aftur í gagnið og að Eiðar hefjist aftur til þeirrar virðingar sem þeir eiga skilið.

Gamli alþýðuskólinn á Eiðum var um langt árabil mikið mennta- og menningarsetur á Austurlandi. Undanfarin ár hefur staðurinn verið í niðurníðslu eftir að áform Sigurjóns Sighvatssonar um að byggja staðinn upp runnu út í sandinn og Landsbankinn eignaðist jörðina og húsin. Mörgum Austfirðingum hefur þótt sárt að horfa upp á staðinn grotna niður. 

Nú berast jákvæðar fréttir frá Eiðum. Þeir Kristmann Pálmason og Einar Ben Þorsteinsson gerðu bankanum tilboð í jörðina og allar byggingar gamla alþýðuskólans og hefur bankinn tekið tilboðinu. 

Einar segir í samtali við fréttastofu að þeir ætli að gefa sér tíma til að ákveða hvaða rekstur verður þarna í framtíðinni en augljóst sé að þarna geti orðið ferðaþjónusta og þannig gæti staðurinn orðið sjálfbær. Húsnæði skólans var lengi nýtt sem hótel á sumrin og segir Einar að umhverfi Eiða sé náttúruperla með mikla möguleika. Þeir þurfi ekki að skuldsetja sig til að kaupa jörðina en aðal skuldbindingin felist í því að lagfæra húsnæðið. Fasteignamat eignanna er tæpar 300 milljónir en heildar brunabótamat um 1,4 milljarðar. Jörðin er 768 hektarar að stærð og byggingarnar 4707 fermetrar. Aðallega byggingar sem áður tilheyrðu Alþýðuskólanum svo sem íþróttahús, heimavistarhús, íbúðarhús, kennslustofur og salir.

Þeir vilji koma lífi í fasteignirnar svo að staðurinn fái þá virðingu og heiður sem hann á skilið sem skóla- og menningarsetur í gegnum tíðina. Annars sé stefnan að lofa sem minnstu en gera sem mest. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV