Vildi að KSÍ afturkallaði ákvörðun sína um Kolbein

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Vildi að KSÍ afturkallaði ákvörðun sína um Kolbein

22.09.2021 - 11:11
Lögmaður Kolbeins Sigþórssonar, landsliðsmanns í knattspyrnu, sendi stjórn KSÍ erindi í lok ágúst þar sem hann krafðist þess að stjórnin afturkallaði þá ákvörðun sína að draga hann úr landsliðshópnum fyrir leiki Íslands í undankeppni HM. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fundargerðum sem KSÍ hefur birt. Þar segir einnig að Guðni Bergsson, formaður KSÍ, bauðst til að víkja tímabundið úr starfi en stjórnin taldi sig ekki geta fallist á þá tillögu.

Stjórn KSÍ ákvað að taka Kolbein út úr landsliðshópnum eftir að hann var nafngreindur í tengslum við frásögn Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur í kvöldfréttum RÚV í lok ágúst.

Í fundargerð frá 29. ágúst kemur fram að stjórnin hafi tekið þessa ákvörðun í ljósi „upplýsinga sem fram hafa komið, stöðu mála og til að tryggja umgjörð komandi leikja og hnökralausa þátttöku Íslands í undankeppni HM.“ Stjórnin taldi að með þessu væri hægt að fara betur yfir stöðu leikmannsins.

Kolbeinn var síðan í framhaldinu sendur í tímabundið leyfi af félagi sínu í Svíþjóð og Hörður Felix Harðarson, lögmaður Kolbeins, skrifaði harðorða grein á visir.is þar sem hann sagði ákvörðun KSÍ „ákaflega misráðna.  Félag Kolbeins lýsti því yfir í gær að það ætlaði að styðja við bakið á leikmanninum í endurhæfingu sinni. 

Í fundargerðunum kemur einnig fram að stjórn KSÍ taldi sér ekki stætt á að sitja áfram eftir að stjórn Íslensks toppfótbolta og níu félög í 2., 3. og 4. deild lýstu yfir vantrausti. „Taldi stjórnin því þann möguleika einan í stöðunni að segja af sér.“  Henni fannst mikilvægt að samtal yrði tekið við forseta ÍSÍ sem og fulltrúa FIFA og UEFA til að stefna komandi verkefnum sambandsins ekki í hættu. 

Í fundargerðunum er einnig varpað ljósi á hvað varð til þess að Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði af sér. Hann bauðst til þess fyrst að að stíga til hliðar tímabundið. Þannig gæfist ráðrúm til að gera úttekt á viðbrögðum sambandsins við þeim málum sem höfðu komið upp í fjölmiðlum sem voru þá viðtal sem Guðni veitti Kastljósi og frásögn Þórhildar Gyðu í kvöldfréttum RÚV. 

Stjórnin féllst ekki á þessa tillögu og ákvað Guðni þá að segja af sér formennsku og kvaðst ætla að ganga frá yfirlýsingu þess efnis. Í lok fundarins kemur síðan fram að stjórnin hafði samband við Guðna og greindi honum frá því að von væri á stuttri tilkynningu um afsögn hans.  Guðni svaraði og sagði að yfirlýsing frá honum myndi bíða betri tíma. Sú yfirlýsing hefur enn ekki borist.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Félagslið Kolbeins segist ætla að styðja hann

Fótbolti

Ný stjórn KSÍ mun aðeins sitja í fjóra mánuði

Fótbolti

Krefjast þess að samningi við Kolbein verði rift

Innlent

Kolbeinn: „Ég harma mína hegðun“