Vanda Sigurgeirsdóttir býður sig fram til formanns KSÍ

Mynd með færslu
Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands.  Mynd: kvan.is

Vanda Sigurgeirsdóttir býður sig fram til formanns KSÍ

22.09.2021 - 10:00
Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði og fyrrverandi landsliðskona í fótbolta, hefur ákveðið að bjóða sig fram í embætti formanns Knattspyrnusambands Íslands. Þetta tilkynnti hún á Facebook-síðu sinni fyrir stuttu.

Vanda var fyrirliði íslenska landsliðsins á sínum tíma og hefur þjálfað lið í meistaraflokki kvenna og karla, sem og íslenska kvennalandsliðið. Hún segist bjóða sig fram til embættisins vegna fjölda áskorana frá fjölskyldu og vinum, sem og fólki í samfélaginu og knattspyrnuhreyfingunni. 

Vanda ræddi mál KSÍ í Vikulokunum á Rás 1 í upphafi mánaðar. Viðtalið má hlusta á hér. 

Guðni Bergsson hætti sem formaður KSÍ í lok ágúst í kjölfar ásakana um þöggun og bág viðbrögð við tilkynningum um kynferðisafbrot og ofbeldi innan hreyfingarinnar. Boðað hefur verið til aukaþings þann 2. október þar sem ný stjórn knattspyrnusambandsins verður kosin.

Frestur til að tilkynna um framboð í stjórn KSÍ er til og með 25. september og þau sem bjóða sig fram til formanns eða stjórnar skulu hafa skrifleg meðmæli aðildarfélaga sem samtals fara með að minnsta kosti 12 atkvæði á knattspyrnuþingi samkvæmt auglýsingu KSÍ um aukaþingið.