Unnusti Gabby Petito enn í felum

22.09.2021 - 22:36
Mynd: AP / AP
Bandaríska alríkislögeglan hefur leitað að manni að nafni Brian Laundrie í nærri viku, án árangurs. Unnusta hans, Gabrielle Petito, hvarf sporlaust þegar þau voru saman á ferðalagi og í gær staðfesti lögreglan að hún hefði verið myrt.

Hin 22 ára Gabrielle eða Gabby Petito og unnusti hennar Brian Laundrie lögðu af stað í ferðalag í júlí. Þau ætluðu að heimsækja þjóðgarða á vesturströnd Bandaríkjanna og voru dugleg að skrásetja ferðalagið á samfélagsmiðlum. Þann tólfta ágúst voru þau stöðvuð af lögreglunni í Utah, fyrir að hafa keyrt yfir hámarkshraða. Lögregluþjónarnir ræddu við þau í um klukkustund í sitthvoru lagi. Þeim var að lokum sleppt án sektar en lögreglan ákvað að skilja þau í sundur í eina nótt. Petito fór keyrandi í burtu en lögreglan ákvað að skutla Laundrie á hótel. 

„Ekkert símasamband í Yosemite“

Á ferðalaginu hafði Petito reglulega samband við móður sína og undir lokin lýsti hún vaxandi spennu í samskiptum við unnusta sinn. Síðustu skilaboðin sem hún sendi voru 27. ágúst. Eftir það var slökkt á símanum hennar og hún birti ekki fleiri færslur á samfélagsmiðlum. Þremur dögum síðar, 30. ágúst, sendi hún skilaboðin: „Ekkert símasamband í Yosemite“ - en fjölskylda hennar er viss um að hún hafi hvorki skrifað né sent þau sjálf. 

epa09481085 An undated handout photo made available by the FBI (Federal Bureau of Investigation) shows Gabrielle 'Gabby' Petito, 22, who was reported missing on 11 September 2021 (issued 22 September 2021). According to a statement by the FBI, her remains were recovered near the Spread Creek Dispersed Camping Area on 19 September 2021, in the Bridger-Teton National Forest on the east boundary of Grand Teton National Park, Wyoming.  EPA-EFE/FBI HANDOUT -- BEST QUALITY AVAILABLE -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - FBI

Þann 1. september snéri Laundrie svo aftur heim, einn á ferð og þögull sem gröfin. Tíu dögum síðar tilkynntu foreldrar Petito að hún væri horfin. Þremur dögum seinna fór Laundrie að heiman og lét sig hverfa. Lögreglan hefur leitað að honum síðan síðasta föstudag án árangurs. Síðasta sunnudag fannst lík á tjaldsvæði í Wyoming sem talið var af Petito. Það var staðfest daginn eftir og í gær tilkynnti FBI að krufning hefði leitt í ljós að Petito var myrt. 

Almenningur hefur fylgst með málinu þróast í gegnum samfélagsmiðla, hver sem er getur skoðað efnið sem þau tvö birtu frá ferðalagi sínu og út frá því hafa sprottið upp hinar ýmsu kenningar, en FBI hefur einnig fengið margar hjálplegar ábendingar frá almenningi. Leit heldur nú áfram af Laundrie. Hann er það sem á ensku er kallað person of interest sem þýðir að lögreglan vill ná tali af honum í vegna málsins en hann hefur þó hvorki verið ákærður né er hann formlega grunaður um morðið.