Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stjórn KSÍ taldi Kolbein ekki eiga inni afsökunarbeiðni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stjórn KSÍ taldi Kolbein ekki eiga inni afsökunarbeiðni

22.09.2021 - 17:55
Lögmaður Kolbeins Sigþórssonar, landsliðsmanns í knattspyrnu, sagði skjólstæðing sinn kannast við að hafa „brugðist rangt við endurteknu áreiti á skemmtistað.“ Kolbeinn taldi kröfur þeirra kvenna sem sökuðu hann um ofbeldi bæði hafa verið óhóflegar og ósmekklegar en hefði engu að síður ákveðið að verða við þeim. Stjórn KSÍ taldi Kolbein ekki eiga inni afsökunarbeiðni á því að hafa tekið hann út úr landsliðshópnum fyrir þrjá leiki landsliðsins í undankeppni HM.

Þetta kemur fram í bréfi lögmanns Kolbeins til stjórnar KSÍ og svari stjórnar KSÍ við bréfi lögmannsins sem fréttastofa hefur undir höndum.  Greint var frá þessum bréfaskriftum í fundargerðum sem KSÍ birti í dag.

Kolbeinn var tekinn út úr landsliðhópi Íslands eftir að umfjöllun birtist um mál sem kom upp á skemmtistað fyrir fjórum árum. Þar var Kolbeinn sagður hafa beitt tvær konur ofbeldi og áreitt þær. Atvikið var kært til lögreglu en málið fellt niður eftir að leikmaðurinn játaði sök og greiddi konunum miskabætur. 

Í bréfi lögmannsins til stjórnar KSÍ, sem var tekið fyrir í byrjun þessa mánaðar, eru konurnar sagðar hafa farið fram með margvíslegar rangfærslur, bæði um eðli brotanna og tildrög þess að sátt komst á í málinu. „Ljóst er að sannleikurinn um þau atvik er þeim alls ekki hagfelldur.“

Stjórn KSÍ hefði getað kannað þetta með því einu að leita skýringa eða afstöðu Kolbeins áður en ákveðið var að víkja honum úr landsliðinu.

Lögmaðurinn segir Kolbein kannast við að hafa brugðist rangt við endurteknu áreiti á skemmtistað.  Hann hafi brugðist við umkvörtunum kvennanna með því að ræða við „þær af einlægni og sætta málið.“

Ekki hafi farið á milli mála að Kolbeinn hafi goldið fyrir það að vera þekktur einstaklingur og í viðkvæmri stöðu, bæði gagnvart félagsliði og landsliði.  „Þrátt fyrir að kröfur kvennanna hafi bæði verið óhóflegar og ósmekklegar [...] ákvað hann að verða við þeim og loka málinu.“ Þetta hafi KSÍ vitað.

Lögmaðurinn rekur síðan hvaða áhrif málið hafi haft á Kolbein og bendir meðal annars á að um hann hafi verið fjallað í 738 greinum í fjölmiðlum um allan heim.  Umfjöllunarvirði þessara greina sé ekki minna en 625 milljónir íslenskra króna samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.  Hann hafi engin tök á að rétta hlut sinn og orðsporsskaðinn því gríðarlegur. 

Hann segir það liggja fyrir að KSÍ hafi að fullu verið upplýst um málið og málalok og konurnar tvær hafi frá upphafi lýst því yfir að þeir eigi ekkert sökótt við hann.  „Síðast en ekki síst eru þetta einstaklega döpur skilaboð til einstaklings sem er markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi og hefur verið boðinn og búinn að nýta starfskrafta sína í þágu landsliðsins þrátt fyrir erfið meiðsl í gengum tíðina.“

Skorað er að stjórn KSÍ að draga fyrri ákvörðun sína til baka og koma opinberlega á framfæri afsökunarbeiðni til Kolbeins.  Þá áskilur Kolbeinn sé rétt til miska-og fjártjónsbóta, ekki síst ef hlutur hans verði ekki réttur hið fyrsta.  Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur dómsmál ekki komið til tals á þessu stigi.

Stjórn KSÍ fól lögmannsstofunni Lex að svara fyrir sína hönd. Í svarbréfinu kemur fram að það hafi verið mat hennar að það væri hvorki í þágu íslenska landsliðsins né Kolbeins að hann tæki þátt í leikjunum þremur sem voru fram undan í undankeppni HM.   Skapa þyrfti svigrúm til að fara yfir mál hans og afla nánari upplýsinga um það. 

Á það er jafnframt bent að leikirnir væru búnir og því væri þýðingarlaust að draga ákvörðun stjórnarinnar til baka.  Því er jafnframt hafnað að ákvörðunin hafi verið orsök þeirrar umfjöllunar sem Kolbeinn hafi fengið í samfélaginu og í fjölmiðlum. Umræðan um málið hafi þegar verið farin af stað þegar ákvörðunin var tekin. 

Í svarbréfinu ítrekar stjórnin að þessi ákvörðun hafi verið tekin við mjög sérstakar og krefjandi aðstæður. Nauðsynlegt hafi þótt að bregðast hratt við og tryggja að leikirnir gætu farið friðsamlega fram og að þátttöku Íslands í undankeppni HM yrði ekki stefnt í hættu.  Stjórnin teldi því ekki ástæðu til að biðja Kolbein afsökunar.