Staðfesta að Petito hafi verið myrt

22.09.2021 - 02:08
Mynd með færslu
 Mynd: North Port Police - RÚV
Bandaríska alríkislögreglan FBI staðfesti í gærkvöld að líkið sem fannst í Wyoming um helgina væri lík hinnar 22 ára gömlu Gabrielle Petito. Grunur leikur á að hún hafi verið myrt. Petito hvarf sporlaust á ferðalagi með unnusta sínum, Brian Laundrie.

Fjölskylda hennar tilkynntu um hvarfið 11. september, en foreldrar hennar höfðu ekki heyrt í henni síðan seint í ágúst. Hvarfið vakti talsverða athygli því Petito hafði verið iðin við að birta myndir úr ferðalaginu á Instagram þar sem hún naut mikilla vinsælda. 

Dánardómstjóri í Teton-sýslu í Wyoming sagði lík hennar benda til þess að hún hafi verið myrt. Lögregla vildi ná tali af Laundrie vegna hvarfs Petito, en hann neitaði að vinna með lögreglunni. Hann hvarf svo sjálfur fyrir nokkrum dögum.

Í yfirlýsingu FBI er fólk sem átti samskipti við þau Petito og Laundrie eða varð vart við bílinn þeirra dagana 27. til 30. ágúst beðið um að hafa samband við lögreglu. Eins óskar FBI eftir upplýsingum um dvalarstað Laundrie, eða upplýsingar um þátt hans í láti Petito.