Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sinna má gömlum kirkjum og húsum betur

22.09.2021 - 22:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Deildarstjóri minjavörslu og rannsókna hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur segir viðhald og eftirlit mikilvægan þátt í varðveislu menningararfs, eins og Miðgarðakirkju í Grímsey sem brann til kaldra kola í nótt. Gera megi betur í að sinna gömlum kirkjum og húsum.

María Karen Sigurðardóttir er stjórnarmaður í alþjóðadeild um verndun minnisvarða og sögustaða auk þess að vera deildarstjóri hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur. Hún segir kirkjubrunann í Grímsey vera áfall.

„Það eru mikil verðmæti sem eru farin og fyrst og fremst eru þetta burtséð frá byggingasögulegu og menningarsögulegu verðmæti þá er það mikið tilfinningalegt tjón fyrir fólkið sem býr í samfélaginu því þetta er náttúrulega þeirra stærsta menningarmiðstöð ef svo má orða sem kirkjan er, og þar sem fólk hefur átt sínar mestu gleðistundir og sorgarstundir líka þannig að þetta er mikið tjón fyrir þetta samfélag."

Út frá forvörnum og minjavörslu  skiptir reglulegt viðhald á timbri og rafmagni í gömlum húsum miklu máli að sögn Maríu Karenar. Einnig að eftirlit sé haft með húsakynnunum. Alltaf megi gera betur í að sinna gömlum kirkjum og húsum.

„að það sé skráð niður það sem þarf að gera og hvað hefur verið gert. Varðandi sjálfan menningararfinn þá er kirkjan farin og gripirnir en í menningunni skiptum við menningararfinum að mörgu leyti í tvennt. Það er að segja í áþreifanlegan menningararf það eru að segja sem við getum snert eins og kirkjan og kirkjugripirnir og síðan er það óáþreifanlegur menningararfur það er það sem við getum ekki snert og það getur bara verið frásagnir fólks, upplifun þess sögur og slíkt."

Ólöf Rún Skúladóttir