Búið að skipa nefnd til að fara yfir viðbrögð KSÍ

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd/ ÍSÍ - RÚV

Búið að skipa nefnd til að fara yfir viðbrögð KSÍ

22.09.2021 - 14:25
Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, verður formaður nefndar á vegum ÍSÍ til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og Rán Ingvarsdóttir, lögfræðingur, eiga sæti í nefndinni ásamt Kjartani.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍSÍ.  KSÍ hefur ábyrgst að nefndin fái aðgang að öllum þeim gögnum sem sambandið hefur undir höndum. 

Formaður og  stjórn KSÍ sögðu af sér í skugga ásakana um að ofbeldis-og kynferðisbrot leikmanna hefðu verið þögguð niður.  

Fram kemur í tilkynningu frá ÍSÍ að nefndin eigi að fara yfir þá atburðarás sem leiddi til afsagnar formanns og fyrirhugaðrar afsagnar stjórnar KSÍ í september ásamt því að bregðast við ásökunum sem fram hafa komið m.a. um þöggun innan KSÍ.

Nefndinni hefur einnig veirð falið að staðreyna eins og kostur er hvaða vitneskja hafi verið innan stjórnar og / eða starfsmanna KSÍ um að leikmenn landsliða eða aðrir sem starfa fyrir KSÍ hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á árunum 2010 – 2021.

Nefndin á einnig að taka til athugunar hvort einhverjar þær aðstæður séu uppi innan KSÍ sem hamla þátttöku kvenna í starfi þess. Þetta er gert í tengslum við fullyrðingar sem fram  hafa komið í opinberri umræðu um að KSÍ sé karllægt og fráhrindandi fyrir konur. Í því sambandi verður skoðað hvort skipulag KSÍ eða aðrir þættir í starfseminni séu hamlandi fyrir þátttöku kvenna í starfinu.