Allar veðurviðvaranir fallnar úr gildi

22.09.2021 - 06:54
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Allar veðurviðvaranir eru fallnar úr gildi eftir djúpa lægð sem gekk yfir landið í gær. Lægðin er nú komin austur fyrir Jan Mayen. Enn mælist hvassviðri við norðausturströndina en þar dregur úr vindi á næstu klukkustundum.

Í dag er gert ráð fyrir vestlægri átt, yfirleitt á bilinu átta til þrettán metrar á sekúndu. Skúrir eða slydduél í flestum landshlutum og vindur getur aukist tímabundið meðan á hryðjunum stendur. Hiti verður 2 til 8 stig en í kvöld lægir og léttir til á sunnan- og vestanverðu landinu og kólnar allvíða niður að frostmarki, og þá getur myndast hálka á vegum.

Á morgun nálgast lægð úr suðvestri og fer miðja hennar yfir landið. Þá má búast við austlægri og síðar breytilegri átt fimm til þrettán metrum á sekúndu með rigningu. Á Norður- og Austurlandi verður þurrt þangað til síðdegis en þá fer einnig að rigna þar og slydda á heiðum. Hiti verður 2 til 9 stig og mildast verður við suðurströndina.

Það dregur síðan úr vindi og úrkomu á föstudag en á laugardag nálgast enn ein lægðin. Það má því gera ráð fyrir að kjördagur verði vinda- og vætusamur.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er vetrarfærð á fjallvegum víða á Norðurlandi og Vestfjörðum. Vegfarendur eru beðnir um að athuga vel færð áður en lagt er af stað því aðstæður geta breyst hratt.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV