Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Verja 150 milljónum til hreinsunar strandlengjunnar

21.09.2021 - 23:44
Mynd með færslu
 Mynd: Tómas J. Knútsson - Aðsend mynd
Samstarfsyfirlýsing um fimm ára átak í hreinsun strandlengju Íslands var undirrituð í dag. Ríkið ætlar að veita 150 milljónum til átaksins á fimm árum. Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins, gleðst yfir átakinu sem hann hefur beðið eftir í 25 ár.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, undirritaði samstarfsyfirlýsinguna fyrir hönd síns ráðuneytis. Fulltrúar Bláa hersins, Landverndar, Ocean Missions, SEEDS, Umhverfisstofnunar og Veraldarvina undirrituðu hana einnig. Átakið byggir á aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum plasts og er ætlað að stuðla að vitundarvakningu um plast í hafi og tryggja að hreinsuðum ströndum sé haldið við. 

Mikilvægt að draga úr myndun úrgangs

„Sjálfboðaliðar og frjáls félagasamtök hafa gegnt lykilhlutverki í hreinsun stranda hingað til og eiga miklar þakkir skyldar,“ er haft eftir umhverfisráðherra í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.  „Með samstarfsyfirlýsingunni í dag tryggjum við að þau geti sett enn meiri kraft í það mikilvæga starf til næstu fimm ára. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að draga úr plastmengun á ströndum og í hafi, en þar hefur plast safnast upp í miklu magni og ógnar lífríki víða. Á sama tíma þurfum við að draga úr myndun úrgangs, endurvinna meira af plasti og koma í veg fyrir að það berist út í náttúruna. Á alþjóðavettvangi þurfa íslensk stjórnvöld áfram að vinna að alþjóðasamningi gegn plastmengun, en ég hef talað fyrir slíkum samningi undanfarin ár.“

Mynd með færslu
Umhverfisráðherra ásamt fulltrúum þeirra sem undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna í dag.  Mynd: Umhverfisráðuneyti

Stór stund hjá Bláa hernum

Stofnandi Bláa hersins, Tómas Knútsson, segir að það hafi verið stór stund í dag þegar samstarfsyfirlýsingin var undirrituð. Hann hafi beðið eftir þessu skrefi stjórnvalda í 25 ár. Þetta sé í fyrsta sinn sem hreinsun strandlengjunnar sé sett svo markvisst á dagskrá. Hann hefur hreinsað fjörur landsins árum saman og fengið til þess styrki frá ríkinu en ekki á eins markvissan hátt og næstu fimm árin. „Vonandi verður þetta öllum þeim sem að hlut eiga að máli til framdráttar og vonandi geta þeir gert góða hluti og geta gert þessu verkefni góð skil,“ segir Tómas í samtali við fréttastofu. 

Áætlar að það sé um 30% minna af rusli

Tómas hefur í gegnum árin farið aftur og aftur í sömu fjörurnar til að hreinsa upp og getur því borið saman magn og fengið tilfinningu fyrir þróuninni. Hann segir ánægjulegt að nú sé um þrjátíu prósent minna sem þurfi að hreinsa upp. Það plast sem finnist í dag sé mestmegnis gamalt og sitji í grjótgörðum en losni þegar veður er vont. 

Herforingi Bláa hersins vill síður tala um plastið sem rusl eða drasl heldur sem hráefni eða fjörugóss. Hann segir að í framtíðinni ætti að leggja meiri áherslu á að endurvinna það sem finnist. Það hafi verið hráefni áður og að með smá umhyggju geti það orðið aftur að hráefni. 

Mynd með færslu
Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins.  Mynd: Hulda Geirsdóttir - RÚV