Veðrið rífur í gamla Herjólf við Vestmannaeyjahöfn

21.09.2021 - 16:19
Mynd: Tígull.is / RÚV
Bálhvasst og aftakaveður er í Vestmannaeyjum. Þakplötur hafa fokið af fiskvinnslum og björgunarsveitarmenn og hafnarstarfsmenn berjast við að halda gamla Herjólfi við bryggju.

Fór rólega af stað í morgun en verkefnum fjölgar

Um 200 björgunarsveitarmenn úr  björgunarsveitum víðs vegar að af landinu hafa haft í nægu að snúast eftir hádegi í dag eftir að veður tók að versna. Gular og appelsínugular viðvaranir eru enn í gildi um allt land.

„Við áttum rólegan morgun þangað til rétt rúmlega eitt. Þá kom eiginlega bara holskefla af útköllum hjá björgunarsveitum á Suðurlandi og sunnanverðum Vestfjörðum alveg á svæðinu frá Öræfum og vestur á Reykjanesið og svo á nánast öllum sunnanverðum Vestfjörðum voru björgunarsveitir kallaðar út, að miklu leyti út af ökumönnum í vandræðum á fjallvegum og foktjóni; trampólín og þakklæðningar og þetta sem við höfum heyrt oft af áður,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Hann segir að nokkuð hafi borist af aðstoðarbeiðnum á höfuðborgarsvæðinu en ekki sé vitað um nein slys á fólki.

Veistu hversu margir björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum í dag?

„Hingað til núna eru komnir hátt í 200 björgunarsveitarmenn sem hafa komið í verkefni síðan í morgun,“ segir Davíð.

Fjúkandi fótboltamörk og trampólín

Og meðal þessara 200 björgunarsveitarmanna er Arnór Arnórsson formaður Björgunarsveitar Vestmannaeyja.

„Við erum búin að fara í fjúkandi fótboltamörk, í fjúkandi trampólín, í þakplötur, þakklæðningar, svalahurðir, bara allt þetta helsta.“

Hefurðu einhverja tölu á þeim útköllum sem þið hafið farið í?

Þetta eru rúmlega 20 verkefni.“

Og margir björgunarsveitarmenn í þeim?

Við vorum 18 á ferðinni,“ segir Arnór. 

Meðal verkefna í Vestmannaeyjum er að festa þakplötur. Þegar verst lét fór vindur í 57 metra á sekúndu í hviðum. Trausti Hjaltason er framkvæmdastjóri hjá Hafnareyri í Vestmannaeyjum.

„Það er bara mjög vont veður, bara bálhvasst og björgunarsveitin er hérna í bænum að reyna að bjarga því sem bjargað verður svo verðum við bara að bíða og sjá og vona að þessu fari að slota. Það eru einhverjar plötur búnar að fjúka af frystigeymslunni hjá okkur og kör búin að vera að fjúka og lenda á bílum.“

Herjólfur slítur landfestar

Björgunarsveitarmenn eru á ferðinni um allan bæ að fergja hluti og koma í veg fyrir tjón. Þá rífur vindurinn hressilega í gamla Herjólf sem sleit landfestar vegna veðursins. 

„Þeir eru búnir að vera í vandræðum með að halda honum að bryggju, það er það mikið rok á hliðina á honum. Ég veit að Lóðsinn er að vinna í því með björgunarsveitinni og hafnarvörðunum að halda honum við bryggjuna svo að hann fari ekki af stað,“ segir Trausti.

Er veðrið alveg hrikalegt? 

„Já já, það er ekkert vit að vera á ferðinni. Það er bara alveg kolbilað,“ segir Trausti. 

Katrín Laufey Rúnarsdóttir hjá Tígli í Vestmannaeyjum tók meðfylgjandi  myndskeið.