Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þetta skiptir mjög miklu máli“

Mynd: Bragi Valgeirsson / Skjáskot
Fyrstu íbúar flytja inn í nýtt áfangaheimili Kvennaathvarfsins í næstu viku. Þar geta konur búið með börn sín í allt að ár eftir að dvöl þeirra í athvarfinu lýkur og þegar hafa fimm íbúðir verið leigðar út. Dæmi eru um að konur búi með nokkur börn í litlum herbergjum athvarfsins mánuðum saman.  

Húsið er í miðborg Reykjavíkur, þar eru 17 íbúðir á hagstæðum kjörum ætlaðar konum sem hafa lokið dvöl í Kvennaathvarfinu og geta ekki snúið aftur til heimila sinna. Ein íbúð er svo fyrir hreyfihamlaðar konur sem ekki geta nýtt sér Kvennaathvarfið vegna aðgengismála.

Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir áfangaheimili sem þetta hafa verið á teikniborðinu býsna lengi. „Þetta er mjög eðlilegt framhald af dvöl í kvennaathvarfi, að geta tekið þetta skref,“ segir Sigþrúður.

„Hugmyndin er sú að styrkja og hvetja konurnar til þess að byggja upp sitt líf og líf sinna barna ,“ segir Hulda Sædís Bryngeirsdóttir verkefnastýra áfangaheimilisins. „Að minnka líkurnar á því að þær fari aftur í sömu aðstæður og þær voru í.“

Að meðaltali dvelja 12 konur á dag í Kvennaathvarfinu og hluti þeirra dvelur þar mánuðum saman, allt upp í ár, gjarnan með börnum, að sögn Sigþrúðar.

„Konur fara gjarnan úr athvarfinu í mjög erfiðar aðstæður; í háa og ótrygga leigu, sjálfar kannski á lágum launum, tíðir flutningar og jafnvel fátækragilda  getur beðið þeirra.“

Miðað er við að konurnar og börn þeirra dvelji að hámarki í eitt ár á áfangaheimilinu. „Þá verður metin hver staða þeirra er og ákvörðun tekin um framhaldið út frá því,“ segir Hulda.

Fimm íbúðir hafa verið teknar frá

Hún segist eiga von á að búið verði í öllum íbúðunum innan skamms, en nú þegar hafa fimm íbúðir verið teknar frá og flutt verður í þær í næstu viku.

„Þetta skiptir mjög miklu máli. Bæði það að hafa einhvern stað til að fara á, að þurfa ekki að fara aftur heim til baka í slæmar aðstæður. Og svo líka sú uppbygging sem við erum að vonast til að þær nái hérna á þessum stað,“ segir Hulda.