Sviptingar í Suðurkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sósíalistaflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins fengju allir kjördæmakjörinn þingmann í Suðurkjördæmi samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Prófessor í stjórnmálafræði segir það sæta tíðindum en tekur niðurstöðunni með fyrirvara.

Nýr Þjóðarpúls Gallups var birtur í gær og sýnir hann að ríkisstjórnin er fallin og að Flokkur fólksins er í mikilli sókn. Niðurstöðurnar í Suðurkjördæmi eru heldur óhefðbundnar. Þannig mælist Framsókn aðeins með einn kjördæmakjörinn mann í kjördæmi formannsins Sigurðar Inga Jóhannssonar þótt mjög litlu muni að eini þingmaður VG færist yfir til Framsóknar.

Eini þingmaður VG tæpur

En það er gott gengi framboða utan fjórflokksins sem vekur einnig athygli. Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn mælast öll með í kringum 10 prósenta fylgi og fengju samkvæmt þessu kjördæmakjörinn þingmann. Samfylkingin mælist hins vegar einungis með 6,8 prósent í kjördæminu og engan þingmann og VG rétt nær inn þingmanni með tæplega 8 prósent.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að verði þetta niðurstaðan muni það teljast til tíðinda. Hann á þó síður von á að svo verði. „Það hefur verið kjördæmi þar sem flokkurinn hefur oft verið sterkari heldur en annars staðar. Framsóknarflokkurinn hefur líka verið sterkur og það væru tíðindi ef hann fengi bara einn mann í Suðurkjördæmi en í þessari könnunum munar eiginlega engu að hann fái tvo og ég held að það sé nú langt líklegast.“

Ólafur bendir á að skekkjumörk í könnuninni fyrir kjördæmið séu í hærra lagi, eða um sex prósent. Þess vegna sé í raun lítill munur á þeim sjö flokkum sem eru að mælast á bilinu sex til tólf prósent og taka verði mið af því þegar lesið er í niðurstöðurnar.