Ökumenn í vandræðum fyrir norðan

21.09.2021 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Vegagerðin á Norðurlandi lokaði þjóðvegi eitt um Öxnadalsheiði og Fljótsheiði um tíma í morgun. Þar lentu ökumenn í vandræðum í snjó og hálku, enda allflestir enn þá á sumardekkjum. Á Austurlandi eru menn í viðbragðsstöðu og lögregla og björgunarsveitir fylgjast grannt með veðurspá.

Það er enn þá hæglætisveður víðast hvar á Norður- og Austurlandi, er þó tekið að hvessa við ströndina og á fjallvegum tók færð að spillast fram undir hádegi.

Löng bílaröð sitt hvoru megin Öxnadalsheiðar

Þannig lokaði Vegagerðin þjóðvegi eitt um Öxnadalsheiði og Fljótsheiði á tólfta tímanum. Þar höfðu ökumenn lent í vandræðum enda nær allir enn þá á sumardekkjum. Starfsmaður Vegagerðarinnar sagði í samtali við fréttastofu að alllöng bílaröð hafi myndast sitt hvoru megin við Öxnadalsheiði og ökumenn biðu eftir að þeir kláruðu að hreinsa af veginum. Um hálf eitt var opnað aftur fyrir umferð og færð á Norðurlandi hefur batnað eftir því sem liðið hefur á daginn.

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RUV
Það var kuldalegt um að lítast á Akureyri í morgun

Við öllu búnir á Austurlandi

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um sérstakar aðgerðir þar. Vakin hafi verið athygli á vondri veðurspá og árétting og upplýsingar verið sendar til almannvarnarnefndir og menn upplýstir hver á sínu svæði.

Sveinn Oddsson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á Austurlandi tekur í sama streng. Þar séu allir vel upplýstir um hvað sé í vændum og fylgist með sínu nærumhverfi. Það spáir vestlægri átt fyrir austan þegar líður á daginn, allt upp í 28 metrum á sekúndu. Í vestanátt getur orðið mjög hvasst víða á Austurlandi.