Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ný gossprunga opnaðist á La Palma

21.09.2021 - 16:27
Erlent · Hamfarir · eldgos · kanaríeyjar · Spánn · Evrópa
epa09479206 Firemen look at the lava flow from the Cumbre Vieja volcano as it moves towards the neighborhood of Todoque, in the municipality of Los Llanos de Aridane, after all locals were evacuated, in La Palma, Canary Islands, Spain, 21 September 2021.The Cumbre Vieja volcano began to erupt in Montana Rajada in the municipality of El Paso on 19 September.  EPA-EFE/Ramon de la Rocha
 Mynd: EFE-EPA
Yfirvöld á Kanaríeyjunni La Palma hafa rýmt um fjörutíu íbúðarhús í bænum El Paso eftir að ný sprunga opnaðist í eldfjallinu Cumbre Vieja og hraun tók að vella út úr henni. Á sjöunda þúsund íbúar eyjarinnar hafa orðið að forða sér eftir að eldgos hófst á sunnudag.

Hraun frá Cumbre Vieja hafði í dögun dreift sér yfir 103 hektara lands á La Palma, samkvæmt mælingu Copernicusar, loftslagsstofnunar Evrópu. Það hefur flætt yfir að minnsta kosti 183 íbúðarhús auk annarra bygginga. Hraunstraumurinn stefnir hægt og bítandi í átt að bænum Todoque þar sem búa um þrettán hundruð manns. Íbúarnir eru í hópi þeirra rúmlega sex þúsund sem hafa verið fluttir á brott. 

Stjórnvöld á Kanaríeyjum hvöttu íbúa La Palma í dag til að fara að öllu með gát. Tveggja sjómílna hættusvæði hefur verið lýst yfir undan ströndinni þar sem hraunið stefnir til sjávar. Fólk sem hyggst fylgjast með sjónarspilinu úr bátum kann að verða í hættu ef gasstróka frá hrauninu leggur á haf út. Búist er við að hraunstraumurinn nái til sjávar síðar í dag. 

Enn hefur ekkert manntjón orðið af gosinu á La Palma. Pedro Sanchez forsætisráðherra kannaði aðstæður á eyjunni í gær. Hann tilkynnti að þeir sem misst hefðu eigur sínar fengju þær bættar, en hið tilfinningalega tjón fengist víst ekki bætt.  Filippus Spánarkonungur er væntanlegur til La Palma á fimmtudag.