Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

NASA sendir far til tunglsins í leit að vatni

21.09.2021 - 01:22
Mynd með færslu
 Mynd: NASA
Bandaríska geimferðastofnunin NASA tilkynnti í gær að könnunarjeppi verði sendur til suðurpóls tunglsins árið 2023. Vonir standa til að hægt verði að færa sönnur á að vatn leynist undir yfirborði tunglsins.

Til stendur að bora nokkra metra undir yfirborð tunglsins. Í framtíðinni væri þá hægt að nýta vatnið til framleiðslu eldsneytis fyrir geimför á leið til reikistjörnunnar Mars.

Ætlunin er að könnunarjeppinn lendi í gíg á suðurpólnum en þar er eitthvert kaldasta svæði sólkerfisins. Svæðið hefur rannsakað og mælt úr fjarlægð með tækjum um borð í gervihnöttum og ómönnuðum könnunarförum. 

Vísindamenn vilja komast að því hvernig vatn varð til á tunglinu, hvernig það varðveittist um milljarði ára og hvar það er nú. Áætlunin gengur undir heitinu Artemis og er hluti fyrirætlana Bandaríkjamanna um að senda mönnuð geimför til tunglsins að nýju.

Áætlanir gera ráð fyrir að það verði árið 2024 en líklegt þykir að það tefjist allnokkuð enda hefur margt orðið til að tefja framvindu verkefnisins. 

Geimjeppinn verður knúinn sólarorku, er á stærð við golfbíl, vegur rúmlega 400 kíló og sagður líta út eins og vélmenni úr Stjörnustríðsmynd.

Honum verður stjórnað frá jörðu nánast í rauntíma, ólíkt svipuðum tækjum sem send hafa verið til Mars enda er örstutt til tunglsins, aðeins 300 þúsund kílómetrar eða 1,3 ljóssekúndur. 

Hann verður einnig hraðskreiðari en Mars-jepparnir, kemst yfir 800 metra á klukkustund. Rafhlaðan endist í um 50 klukkustundir og á að þola miklar hitasveiflur. Alltaf verður hægt að snúa jeppanum þannig að sólarorkuspeglarnir vísi alltaf að sólu.