Listaverk sem gerir heiminn aðeins betri

Mynd: a24 Films / a24 Films

Listaverk sem gerir heiminn aðeins betri

21.09.2021 - 12:56

Höfundar

Kvikmyndin Minari, um kóreska fjölskyldu sem reynir að skjóta rótum í Bandaríkjunum á níunda áratugnum, er ljúfsárt meistaraverk sem bræðir jafnvel mestu þumbara.

Minari fjallar um kóreska fjölskyldu sem setur á fót bóndabýli í Arkansas í Bandaríkjunum þar sem hún freistar þess að handleika ameríska drauminn með því að rækta kóreska ávexti og grænmeti og selja til ört vaxandi samfélags innflytjenda. Ræktunin gengur þó brösuglega og fjölskyldulífið breytist þegar orðljót en ósköp ljúf amman flytur inn á heimilið.

Myndin var tilnefnd til sex Óskarsverðlauna 2021, meðal annars sem besta kvikmyndin og fyrir leikstjórn en Yuh-jung Youn, sem leikur ömmuna, hlaut Óskarinn fyrir besta hlutverk í aukahlutverki. Hún var einnig valin besta erlenda kvikmyndin á Golden Globe-verðlaunahátíðinni 2021.

Rætt var um Minari í Lestarklefanum á Rás 1. Gestir í þættinum voru Auður Jörundsdóttir, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, Atli Sigþórsson, skáld, og Anna Hafþórsdóttir, rithöfundur og leikkona.

Mynd með færslu
 Mynd: Lestarklefinn - RÚV
Anna Hafþórsdóttir, Atli Sigþórsson og Auður Jörundsdóttir.

Myndin hitti Atla í hjartastað. „Það er nú eiginlega skömm frá því að segja en mér fannst hún alveg dásamleg. Ég er óttalegur drumbur en mér fannst hún yndisleg. Alveg frábær. Ég fer helst ekki í bíó nema fyrir geimskip en ég naut hennar svo mikið og leið svo vel yfir henni, en ekki vegna þess að hún færir mann í einhvern doða eða mók. Eftir 10 mínútur gafst ég upp og fór að njóta hennar algjörlega skilyrðislaust. Ég veit ekki hvar ég ætti að hnýta í hana, hún er hlý og notaleg en hún er samt skörp og hvöss, með brodd og hefur mikið að segja um Bandaríkin í einhverju öðru samhengi.“

Anna Hafþórsdóttir tekur undir það en bætir við að þrátt fyrir broddinn örli ekki á predikunartóni í myndinni. „Hún er ekki að segja manni hvað maður á að hugsa eða hvað manni á að finnast um neitt.“

Myndin er á köflum sorgleg, segir Auður Jörundsdóttir, og dregur upp mynd af fólki sem sem reynir að skjóta rótum við erfiðar aðstæður. „Þetta er líka klassísk saga, um ástina á móti lífsviðurværinu. Er eitthvað einhvers virði ef það er ekki ást?“

Anna og Atli eru sammála um að Minari sé einfaldlega meistaraverk. „Amman er algjör stjarna og allar persónurnar eru svo vel skrifaðar og vel mótaðar,“ segir Anna. „Handritið er svo gott og akkúrat nóg af þráðum í gangi. Það eru þessi sambönd, mun þetta ganga hjá þeim, verður uppskeran í lagi? Þetta er akkúrat nóg. Hún er hæg og þægileg en samt alltaf einhver undirliggjandi spenna. Það er risastórt hjarta í myndinni. Leikstjórinn er að skrifa um sína fjölskyldu en það er eitthvað óáþreifanlegt sem kemur frá tökuliðinu. Einhverjir galdrar í gangi á settinu.“

„Þetta er líka mynd um fátækt fólk að reyna að plumma sig,“ bætir Atli við að lokum. „Þetta er einhver útgáfa af ameríska draumnum, hversu svakalegt fyrirbrigði hann er og háskalegt. Vegna þess að þetta er ekki bara krútt og kósí og ekki bara harmur og ströggl, þá held ég að þetta sé rakið listaverk sem að gerir heiminn aðeins betri í kosmísku jafnvægi. Þetta er holl list – ekki í neinum sovéskum skilningi.“

Í Lestarklefanum á Rás 1 var fjallað um leiksýninguna Rómeó og Júlíu, haustsýningu Hafnarborgar, sem nefnist Samfélag skynjandi vera, og kvikmyndina Minari í Bíó paradís. Gestir eru Anna Hafþórsdóttir, rithöfundur og leikkona, Atli Sigþórsson, skáld, og Auður Jörundsdóttir, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Segir sviðsmynd Kötlu rosalega sannfærandi

Sjónvarp

Lýjandi nautnalíf norskra plebba

Tónlist

„Leikhús eins og það gerist best“

Sjónvarp

Hlaut áverka í andköfum yfir Gösta