Lægðin dýpkaði og spárnar versnuðu

21.09.2021 - 08:22
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir lægðina hafa dýpkað í nótt og veðurspárnar versnar. Appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út víða á landinu, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, og fólk hvatt til að huga að lausum munum. „Þetta er veður sem getur til dæmis valdið talsverðum vindhviðum við há hús eins og í Skuggahverfinu, þar sem við vitum að veður hefur verið til vandræða,“ segir Elín.

„Miðað við spár eins og þær voru fyrst á sunnudag og svo í gærmorgun þá dýpkaði lægðin heldur í nótt og nýjustu spár sem við fengum í nótt voru nógu slæmar til þess að okkur þætti ástæða til að uppfæra viðvaranir upp í appelsínugult núna eftir hádegi og fram á kvöld,“ segir Elín Björk. 

Mesta rigningin verði núna fyrir hádegi með suðaustan- og austanátt. „Þetta er rigning hérna á sunnanverðu landinu en á Vestfjörðum er norðaustanátt og hríð á fjallvegum sérstaklega,“ segir Elín. 

Vindáttin snúist eftir hádegi: „Síðan snýst þetta í vestan- og norðvestanátt eftir hádegi og það er það sem við erum að vara við með appelsínugulri viðvörun. Það er ekki alveg jafnmikil úrkoma í þeim skilum eða þeim hluta lægðarinnar. En þá er miklu hvassara þannig að þá getur líka verið blautt á vegum. Og það heldur áfram að rigna þrátt fyrir að ákefðin verði kannski aðeins minni hér sunnantil heldur en fyrst í morgunsárið,“ útskýrir Elín. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV