Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kjósendur vilja meira fé til heilbrigðismála

Mynd: Landspítalinn / Landspítalinn
Átta af hverjum tíu kjósendum vilja að meira fé verði varið til heilbrigðisþjónustu en nú er gert. Meirihluti vill að hið opinbera sjái um rekstur þjónustunnar en mikill munur er á afstöðu eftir stuðningi við stjórnmálaflokka.

Kjósendur allra flokka eru sammála um að heilbrigðismál verði brýnustu verkefni næsta kjörtímabils, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar sem fréttastofa greindi frá í gær. Þátttakendur voru spurðir frekar út í afstöðu sína til heilbrigðismála og þar kemur fram að 80 prósent aðspurðra vilja að fjárveitingar til málaflokksins verði auknar. 18 prósent vilja óbreyttar fjárveitingar og 2 prósent minni.

65 prósent vilja að heilbrigðisþjónustan eigi fyrst og fremst að vera rekin af hinu opinbera, 34 prósent jafnt af einkaaðilum og hinu opinbera og 2 prósent fyrst og fremst af einkaaðilum.

Ólík afstaða eftir flokkum

Ef afstaða er skoðuð eftir stjórnmálaflokkum kemur í ljós að afstaða til rekstrarforms er afar ólík eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk hyggst kjósa. Mestan stuðning fyrir opinberum rekstri heilbrigðisþjónustu er að finna á meðal kjósenda Samfylkingar, Sósíalistaflokks og VG. Kjósendur Pírata og Viðreisnar eru einnig hlynntari opinberu rekstrarformi.

Kjósendur Sjálfstæðisflokks eru síst hlynntir opinberum rekstri, en 35 prósent þeirra vilja að hið opinbera reki heilbrigðisþjónustu. Skiptari skoðanir eru meðal kjósenda Miðflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður - RÚV