Hversu langt er á milli stjórnmálaflokkanna?

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn á mestu málefnalegu samleið með Framsóknarflokknum og Miðflokknum, ef litið er til svara frambjóðenda flokksins í kosningaprófi RÚV. Framsóknarflokkurinn á hins vegar mesta samleið með Miðflokknum og Viðreisn.

Hversu langt er á milli stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar?

Sjálfstæðisflokkurinn á mestu málefnalegu samleið með Framsóknarflokknum og Miðflokknum, ef litið er til svara frambjóðenda flokksins í kosningaprófi RÚV. Framsóknarflokkurinn á hins vegar mesta samleið með Miðflokknum og Viðreisn.

Þetta má lesa úr greiningu á svörum frambjóðenda í kosningaprófi RÚV. Alls hafa 363 frambjóðendur gefið afstöðu sína til fullyrðinganna í prófinu. Kjósendur geta svarað prófinu sjálfir og borið afstöðu sína saman við afstöðu þeirra frambjóðenda sem hafa svarað.

Skrefin á milli mæld

Með því að reikna meðaltal svara allra frambjóðenda hvers flokks má áætla afstöðu flokksins til fullyrðinganna sem settar voru fram. Og út frá afstöðu flokkanna má svo áætla hversu langt flokkarnir þurfa að teygja sig til hvors annars, til þess að gera með sér samning um samstarf í ríkisstjórn.

Ímyndum okkur að það séu 100 skref á milli þess að vera alveg sammála og alveg ósammála fullyrðingunum í kosningaprófinu. Ef flokkur A er með 10 á kvarðanum og flokkur Æ er með 30, þá getum við sagt að það séu 20 skref á milli A og Æ í afstöðu þeirra til fullyrðingar í kosningaprófinu.

Bilið – skrefafjöldinn – á milli allra framboða er svo reiknað fyrir allar 31 fullyrðinguna í kosningaprófinu.

Meðalskrefafjöldinn við allar fullyrðingar er svo reiknaður fyrir öll framboðin. Þannig má áætla hversu langt er á milli flokkanna.

Samanburður allra spurninga

Veldu flokk til þess að skoða samanburðinn
D
S
B
F
C
V
Y
M
P
O
J

Heilbrigðismál og umhverfismál helstu kosningamálin

Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem fréttastofa sagði frá í gær, kemur í ljós að heilbrigðismál og umhverfismál skipti kjósendur mestu máli í aðdraganda kosninganna 25. september.

Einhugur var meðal kjósenda allra flokka að heilbrigðismálin skipti mestu máli. Það er því forvitnilegt að skoða hversu mörg skref eru á milli flokkanna í afstöðu þeirra til fullyrðinga um heilbrigðismál í kosningaprófinu.

Samanburður spurninga um heilbrigðismál

Veldu flokk til þess að skoða samanburðinn
D
S
B
F
C
V
Y
M
P
O
J

Fullyrðingarnar sem teknar eru í greiningu um heilbrigðismál eru:

 • Það á að leyfa kórónuveirunni að ganga án sóttvarnatakmarkana.
 • Stjórnvöld eiga að setja strangar takmarkanir við landamæri til að tryggja að smit berist ekki til landsins.
 • Auka á vægi einkareksturs í heilbrigðiskerfinu.
 • Það þarf að auka fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins.
 • Draga ætti verulega úr kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.
 • Ríkið ætti að taka meiri þátt í lyfjakostnaði sjúklinga.

Þegar litið er til umhverfismála – þar sem loftslagsmálin bera hæst – var enn meira afgerandi hvaða flokkar gætu náð saman og hvaða flokkar fjær. Samfylkingin, Píratar, Sósíalistaflokkurinn, Viðreisn og Vinstri græn standa þar mjög nærri, en aðrir flokkar raðast fjær hvor öðrum.

Samanburður spurninga um umhverfismál

Veldu flokk til þess að skoða samanburðinn
D
S
B
F
C
V
Y
M
P
O
J

Spurningarnar sem teknar eru með í greiningu um umhverfismál eru:

 • Stjórnvöld eiga með beinum hætti að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, til dæmis með hærri gjöldum á mengunarvalda.
 • Stjórnvöld hafa gert nóg til að liðka fyrir grænni umsvifum fyrirtækja og fjárfesta í grænum lausnum.
 • Hagsmunir náttúrunnar eiga að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir við ákvarðanatöku stjórnvalda í atvinnuuppbyggingu.

Skörp skil í klassísku ágreiningsefni

Því er stundum haldið fram að hinn klassíski ás hægri og vinstri í stjórnmálum eigi ekki lengur við þegar pólitíkin er greind. Það má til sanns vegar færa að hægri og vinstri eigi ekki við um öll mál og að stjórnmálin séu flóknari en svo að hægt sé að raða flokkum á einn ás.

En ef bilið á milli afstöðu flokka til fullyrðinga um skatta og opinber gjöld er skoðað – það eru klassísk ágreiningsefni í íslenskri pólitík – kemur í ljós nokkuð stór gjá milli þess flokks sem skilgreina má lengst til vinstri og þess sem oftast er raðað lengst til hægri.

Samanburður spurninga um skatta og gjöld

Veldu flokk til þess að skoða samanburðinn
D
S
B
F
C
V
Y
M
P
O
J

Vinstri-hægri á kannski ekki við um allt, en hann virðist enn duga á þessi klassísku umfjöllunarefni stjórnmálanna.

Spurningarnar sem teknar eru með í greiningu um skatta og gjöld eru:

 • Beita á skattkerfinu til að minnka bilið milli ríkustu og fátækustu einstaklinganna.
 • Hækka á skatta á tekjuhæsta fólkið.
 • Opinberir háskólar eiga að innheimta skólagjöld.
 • Sjávarútvegsfyrirtæki ættu að greiða meira til ríkisins fyrir aðgang að auðlindum.
 • Það ætti að lækka tryggingagjald á fyrirtæki.
 • Stjórnvöld ættu að innheimta hærri gjöld og skatta af erlendum ferðamönnum.

Hér að neðan má glöggva sig á afstöðu hvers flokks til allra fullyrðinga sem settar voru fram í kosningaprófinu. Færðu músina yfir flokkamerkingarnar til þess að sjá listabókstaf flokkanna.

Framsóknarflokkurinn
Viðreisn
Sjálfstæðisflokkurinn
Flokkur fólksins
Sósíalistaflokkurinn
Miðflokkurinn
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
Píratar
Samfylkingin
Vinstri græn
Ábyrg framtíð

Í þessari greiningu eru einungis svör frambjóðenda að baki en ekki er tekið tillit til þess hversu mikið skap saman leiðtogar einstakra flokka eiga eða hvort samstarf þeirra stangist á við gefnar yfirlýsingar.

Á bak við meðaltal hvers flokks eru jafnframt mismargir frambjóðendur sem svöruðu kosningaprófinu. Kosningaritstjórn RÚV óskaði eftir tölvupóstföngum 10 efstu frambjóðenda á öllum listum í öllum kjördæmum. Heimtur póstfanga voru misgóðar þegar frambjóðendum var boðið að taka þátt í prófinu og eftir að það var gert aðgengilegt kjósendum bættust margir frambjóðendur við.

Fjöldi frambjóðenda sem svöruðu kosningaprófinu eftir flokkum er þannig:

 • Samfylkingin – 48 frambjóðendur
 • Sósíalistaflokkurinn – 41 frambjóðandi
 • Viðreisn – 55 frambjóðendur
 • Píratar – 41 frambjóðandi
 • Framsóknarflokkurinn – 30 frambjóðendur
 • Vinstri græn – 49 frambjóðendur
 • Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn – 12 frambjóðendur
 • Sjálfstæðisflokkurinn – 42 frambjóðendur
 • Ábyrg framtíð – 1 frambjóðandi
 • Miðflokkurinn – 36 frambjóðendur
 • Flokkur fólksins – 8 frambjóðendur

Hægt er að þreyta kosningaprófið á kosningavef RÚV hér.

21.09.2021 - 15:14