Hollendingar höfðu 2-0 sigur á Laugardalsvelli

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Hollendingar höfðu 2-0 sigur á Laugardalsvelli

21.09.2021 - 20:38
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætti Hollandi í undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld. Leikurinn var fyrsti keppnisleikur liðsins undir stjórn Þorsteins Halldórssonar.

Hollendingar eru ríkjandi Evrópumeistarar og silfurliðið frá því á síðasta Heimsmeistaramóti. Sveindís Jane Jónsdóttir var spræk í íslenska liðinu og lét Hollendinga hafa fyrir sér. Á níundu mínútu átti hún góðan sprett fram hægri kantinn og skot sem Sari van Veenendaal mátti hafa sig alla við að verja. Á 23. mínútu sendi Jackie Groenen boltann inn á Danielle van de Donk í íslenska teignum. Hún afgreiddi hann í markið og kom Hollandi yfir, 1-0, og þannig var staðan í hálfleik.

Á 65. mínútu fékk Jackie Groenen aftur boltann, að þessu sinni, á vítateigslínunni og skaut honum beinustu leið í mark, staðan orðin 2-0 fyrir Holland. Áfram fékk íslenska liðið einhver færi en allt kom fyrir ekki og lokatölur 2-0.