Fjöldatakmarkanir í Laufskálarétt

21.09.2021 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: Skagafjordur.is - Rúv
Færri komast í Laufskálarétt en vilja þegar réttað verður þar laugardaginn 25. september. Í takt við gildandi takmarkanir á samkomum verður einungis 500 manns heimilt að vera við réttirnar.

Þeir sem ekki eiga miða verður vísað frá

Á vefsíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar kemur fram að einungis verði gefnir út 500 miðar í stóðréttirnar um helgina. Miðunum verður dreift til íbúa á upprekstrarsvæðinu. Þeim sem ekki hafa miða undir höndum verður meinaður aðgangur. Börn fædd árið 2016 eða síðar eru undanþegin fjöldatakmörkunum.

Í tengslum við Laufskálarétt verður haldin reiðhallarsýning bæði á föstudags- og laugardagskvöldinu í reiðhöllinni Svaðastöðum við Sauðárkrók. Þar verða einnig 500 manna fjöldatakmarkanir.

Mikil breyting frá fyrri árum

Faraldurinn hafði einnig áhrif á Laufskálarétt í fyrra. Þá hjálpuðust 30-40 bændur að við að smala hrossum í réttina að viðstöddum rúmlega 100 manns. Í ár verður því örlítið líflegra en árið 2020. Áður en faraldurinn reið yfir komu vanalega um 3.000 manns í Laufskálarétt til að upplifa þá einstöku stemningu sem þar ríkir. Óhætt er að fullyrða að rólegra verði í ár.