Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fékk ekki að aðstoða konu sína sem er með Alzheimer

Ellý Katrín Guðmundsdóttir og Magnús Karl Magnússon
 Mynd: Aðsend - Ljósmynd
Eiginmaður konu með Alzheimer gagnrýnir að hafa ekki fengið að aðstoða hana við að kjósa og telur að eiginkona sín hafi ekki fengið að njóta kosningaleyndar. Hjónin hyggjast kæra framkvæmdina.

Hjónin Ellý Katrín Guðmundsdóttir og Magnús Karl Magnússon fóru á kjörstað utan kjörfundar í gær. Ellý er með Alzheimer og hafði ákveðið að Magnús yrði sér til aðstoðar eins og í fyrri kosningum. Í lögum um aðstoð við atkvæðagreiðslu segir að kjósandi sem ekki sé fær um að kjósa hjálparlaust vegna sjónleysis, eða vegna þess að hann getur ekki ritað á kjörseðilinn með eigin hendi, geti óskað eftir fulltrúa til að aðstoða sig við að kjósa.

Þegar röðin kom að þeim tilkynntu þau um þetta fyrirkomulag, spurt var um ástæðuna og þau útskýrðu sjúkdóm Ellýjar. 

„En kjörstjóri taldi að hún uppfyllti ekki þessi ákvæði um að höndin væri ónothæf og krafðist þess að hún myndi kjósa sjálf,“ segir Magnús. „Við höfðum kosið í síðustu kosningum fyrir fjórum árum, þá gekk þetta áfallalaust og ég fór inn með henni til að greiða atkvæði. Núna var henni tjáð að þetta væri einungis fyrir þá sem sakir sjónleysis eða þeim sem höndin væri ónothæf eins og lögin segja,“ segir Magnús.

Ellý eiginkona mín er með Alzheimer og hún er fullmeðvituð um hvað hún vill kjósa. Henni er líka mjög annt um kosningaleynd og vill að sá aðili sem aðstoðar hana sé sá sem hún velur.

Ellý var vísað inn í kjörklefa að sögn Magnúsar.  „Þar voru margir stimplar og talsvert flókið að geta tengt saman stimpil og flokk. Kjörstjóri fór yfir með henni hvað hver bókstafur væri og taldi þá upp alla og fyrir hvaða flokk þeir væru. Og síðan var dregið fyrir og Ellý stóð þarna ringluð inni. Á meðan var ég að þrátta við kjörstjóra um að hún þyrfti aðstoð og reyndi að skýra út að hennar sjúkdómur ylli því að henni væri höndin ónothæf í þessu tilviki, þetta væri hennar fötlun. Það væri alveg ljóst að ég væri hennar aðstoðarmaður en ég fékk ekki að fylgja henni eftir.“

Dapurleg reynsla á margan hátt

Að lokum fór kjörstjóri inn í kjörklefann með Ellý og aðstoðaði hana við kosninguna, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Magnúsar um að fá að aðstoða konu sína.  Hann segir að þetta hafi verið dapurleg reynsla á margan hátt. „Ég held að þarna hafi kosningaleynd verið brotin á henni. Þetta verður kært til kjörstjórnar og ég vonast til að úr því skýrist svo að réttur fatlaðra með Alzheimer-sjúkdóm sé alveg skýr þegar að kjördegi kemur. Ég veit að það er stór hópur fólks með Alzheimer-sjúkdóm sem stendur frammi fyrir þessum erfiðu aðstæðum. Sjúkdómurinn er nefnilega ekki sýnilegur.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir