Bandaríkin: Fleiri látnir úr COVID en spænsku veikinni

Mynd með færslu
 Mynd: Ríkisbóksafn Queensland - Flickr
COVID-19 hefur dregið fleiri Bandaríkjamenn til dauða en spænska veikin gerði fyrir rétt rúmri öld, fleiri en 675 þúsund manns. Spænska veikin lagði þó hlutfallslega mun fleiri Bandaríkjamenn en COVID-19 hefur gert, enda voru Bandaríkjamenn aðeins þriðjungur af þeim sem þeir eru nú.

Guardian fjallar um það í dag að þrátt fyrir útbreidda bólusetningu víða um heim haldi faraldurinn ennþá heimshlutum í heljargreipum. Hátt í tvö þúsund Bandaríkjamenn láta lífið af völdum sjúkdómsins daglega og vísindamenn þar í landi óttast að næsta bylgja sé handan við hornið og spá því að um 100 þúsund gætu látist til viðbótar fyrir lok þessa árs.

Aðeins um 64 prósent Bandaríkjamanna hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni við COVID-19 og hlutfallið er mjög breytlegt milli ríkja; um 77 prósent í Vermont og Massachusetts og milli 46 og 49 prósent í Idaho, Wyoming og Vestur-Virginíu. 

Spænska veikin dró til dauða 50 milljón manns á heimsvísu og er sögð skæðasta farsótt allra tíma, að minnsta kosti þar til COVID-19 tók að breiðast um heiminn. Smit dreifðust um allan heim í fyrri heimstyrjöldinni og sjúkdómurinn lagðist meðal annars þungt á ungt og hraust fólk. Ekkert bóluefni var til og engin sýklalyf til að ráðast gegn afleiddum sýkingum veirunnar. 

Um 4,6 milljónir manns hafa nú látist af völdum COVID-19 á heimsvísu og aðeins um 43 prósent hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Guardian hefur það eftir Jeremy Brown, yfirmanni bráðalækninga á National Institutes of Health, að allar farsóttir líði undir lok, „en geti valdið skelfilegum skaða á meðan þær geisa“. Hægt væri að draga mjög úr útbreiðslu smita ef viljinn til að þiggja bólusetningu væri meiri: „Við missum gjarnan sjónar á því hversu heppin við erum og tökum hlutunum sem sjálfsögðum“.