Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Appelsínugular viðvaranir víða um landið í dag

21.09.2021 - 07:20
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Ægir Þór Þórs - RÚv
Appelsínugul veðurviðvörun vegna vinds tekur gildi á Vestfjörðum klukkan níu í dag þar sem búast má við norðaustanátt 20-28 m/s og dimmri hríð til fjalla. Viðvörunin verður í gildi til klukkan fimm í dag og Veðurstofan varar við varasömu ferðaveðri og bendir fólki á að tryggja lausa muni.

Appelsínugular viðvaranir taka svo gildi á Suðurlandi, við Faxaflóa og á Miðhálendinu klukkan eitt í dag og verða í gildi fram eftir degi. Þar má gera ráð fyrir snörpum vindhviðum við fjöll, allt að 40 m/s undir Eyjafjöllum, lélegu skyggni og slæmu ferðaveðri.

Klukkan tvö tekur gildi appelsínugul viðvörun á Suðausturlandi með suðvestan 23-28 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. 

Gular viðvaranir verða í gildi alls staðar annars staðar á landinu í dag, ýmist vegna vinds eða úrkomu. Með morgninum má búast við austlægri vindátt, hvassviðri eða stormi með talsverðri rigningu, en jafnvel slyddu á heiðum norðantil á landinu.

Vindátt snýst snögglega eftir hádegi

„Þegar kemur fram á daginn gengur miðja lægðarinnar yfir landið, frá Faxaflóa að Tröllaskaga. Þó hvasst sé allt í kringum lægðarmiðjuna, er skæðasti vindurinn sunnan hennar. Eftir hádegið mun því snúast snögglega um vindátt og vestan og suðvestan rok eða jafnvel ofsaveður skellur á sunnanverðu landinu og síðar á austanvert landið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Óvissa hafi ríkt um dýpt lægðarinnar og hvaða leið hún kæmi en í gær hafi spárnar versnað, og svo aftur í nótt þegar tilefni þótti til að gefa út appelsínugular viðvaranir. 

Dregur úr vindi og úrkomu á vestanverðu landinu í kvöld, en austantil í nótt og fyrramálið. Hitatölurnar stefna niður á við og gera má ráð fyrir vestlægum kalda eða strekkingi og skúrum eða slydduéljum í flestum landshlutum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV