„Við erum að brjóta mannréttindi sjúklinganna okkar“

20.09.2021 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Við erum að brjóta mannréttindi sjúklinganna okkar. Mér finnst eðlilegt að vekja athygli stjórnmálamanna á þessu. Þeirra er valdið. Þeirra er skömmin.“ Svona lýkur nýjum pistli Eggerts Eyjólfssonar, bráðalæknis á bráðamóttöku Landspítalans, á Facebook þar sem hann vekur athygli á aðbúnaði á bráðamóttökunni. Jón Magnús Kristjánsson, kollegi hans, segir ekkert hafa breyst á síðustu árum.

71 klukkustund í einangrun í gluggalausu herbergi

Í pistli Eggerts segir meðal annars að 29 sjúklingar bíði á bráðamóttöku Landspítalans eftir plássi á sérhæfðum legudeildum spítalans og sá sem hafi beðið lengst yfir helgina hafi beðið í 71 klukkustund: „Viðkomandi er í gluggalausu herbergi, í einangrun.“

„Á Landspítalanum í Reykjavík eru nú laus rúm samtals mínus 5. Á Bráðamóttöku Landspítala í Reykjavík eru nú laus pláss samtals mínus 10. Það eru 8 sjúklingar í biðstofunni (lengsta bið þar 1 klst. 42 mínútur),“ skrifar Eggert. 

Ekkert breyst þrátt fyrir neyðaróp

Jón Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilsuvernd og fyrrverandi yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, skrifaði pistil um það sama á Facebook í dag:

„Ég er nýlega farinn að vinna aftur vaktir á bráðamóttöku LSH í hlutastarfi. Það sló mig á vöktum helgarinnar að þrátt fyrir mikla umræðu síðustu mánuði um heilbrigðiskerfisins og bráðamóttökunnar að ekkert hefur breyst þá 6 mánuði sem ég var í burtu. Það hefur í raun ekkert breyst heldur síðustu árin þar á undan þrátt fyrir endurteknar skýrslur og neyðaróp starfsmanna. Enn eru 20-30 innlagðir sjúklinga á hverjum tíma á bráðamóttökunni sem fá ekki pláss á legudeildum,“ segir í pistlinum. 

Bið í 8-9 manna fjölbýli eða gluggalausu herbergi

Þegar fólk komi á bráðamóttökuna fái það sennilega fyrst bekk á ganginum: „..þó þú sért með slæma verki eða er óglatt. Þar þarftu að segja sjúkrasöguna þína og læknirinn mun gera á þér líkamsskoðun án viðeigandi næðis. Erlendar rannsóknir segja okkur að við þessar aðstæður kemur ekki fram mikilvægur hluti sögunnar eða mikilvægum hluta skoðunar er sleppt í um 30% tilvika,“ skrifar Jón. 

Að meðaltali sé sólarhringsbið eftir sérhæfðri legudeildarþjónustu og fólk þurfi annað hvort að bíða í 8-9 manna fjölbýli eða jafnvel í gluggalausu herbergi. „Verst lendir þú þó í því ef þú ert aldraður eða þarft að vera í einangrun. Við vitum að þetta lengir legutíma, eykur við veikindin og sums staðar erlendis hefur þetta leitt til aukinnar dánartíðni sjúklinga.“

Bið eftir lyfjum

„Það eru töluverðar líkur á því að þú fáir ekki mikilvæg lyf á réttum tíma, að þú þurfir að bíða eftir verkjalyfjum vegna þess að starfólkið hefur ekki undan að sinna bæði heilli legudeild og bráðaþjónustunni. Jafnvel getur þú lent í því að missa þvag eða hægðir í rúmið ef þú þarft aðstoð við að komast á salerni af sömu ástæðu,“ skrifar Jón Magnús. 

„Er okkur sem þjóðfélag orðið alveg sama um þá sem þurfa þjónustu bráðamóttökunnar svo lengi sem við lendum ekki í því sjálf?,“ spyr hann og segist óttast að þjóðin hafi nú þegar sætt sig við ástandið.