Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Telja Hornafjarðarrostunginn vera írska dólginn Wally

20.09.2021 - 16:35
Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Jóhannsdóttir
Getgátur eru uppi um að rostungurinn sem skaut upp kollinum á Höfn í Hornafirði í gær sé af írskum ættum. Þar í landi olli hann skemmdum á bátaflota sjómanna fyrr í sumar.

Það heyrir til nokkurra tíðinda að rostungur sjáist hér við land. Í gær heimsótti einn slíkur Hornfirðinga. Hann virtist njóta lífsins í höfninni í bænum en í morgun var hann á bak og burt. 

Velski miðillinn Tenby Observer greinir frá því að sést hafi til rostungsins hér á landi og spyr hvort hann sé hinn sami og sást fyrst til á suðvesturströnd Írlands í vor og aftur í ágúst. Sá rostungur heitir Wally og er sagður hafa ferðast nokkuð vítt og breitt um Evrópu, meðal annars til Frakklands og Spánar í sumar. Í ágúst sást til Wally í bænum Tenby í Wales og hélt hann til þar í um 7 vikur. Síðan í lok ágúst hefur svo ekkert sést til Wally, þar til í gær, ef getgáturnar reynast sannar.

Hópur hvala- og höfrungaunnenda á Írlandi segja að samkvæmt myndum af rostungnum séu þeir áþekkir og líklegt sé að þetta sé sama dýrið. Sár á hreifum dýranna séu til að mynda sambærileg. Þau spyrja sig hvort hann sé á leið til heimkynna sinna á austurströnd Grænlands.

Wally komst í kastljós BBC í ágúst vegna skemmdarverka sem hann vann á bátum í höfnum á Írlandi og víðar um Bretlandseyjar. Haft er eftir írska hvala- og höfrungahópnum að Wally hafi þá sökkt einum til tveimur bátum í hverri höfn sem hann kom við í. Þá var fólk varað við að reyna að nálgast Wally þar sem hann þykir varasamur. 

Ef rétt reynist að þarna sé sami rostungur á ferðinni þá hefur hann synt á bilinu 1.500 til 1.750 kílómetra leið frá suðvesturströnd Írlands að Hornafirði. Rostungurinn er um 800 kíló að þyngd og rúmlega þrír metrar að lengd. Ekkert hefur spurst til Wally frá því í gærkvöld. 

Fréttin hefur verið uppfærð - bærinn Tenby er í Wales en ekki á Írlandi, eins og fyrst var sagt.