„Svo er ég búin með síðasta tóninn og fer að hágráta“

Mynd: Guðrún Árný Karlsdóttir / Aðsend

„Svo er ég búin með síðasta tóninn og fer að hágráta“

20.09.2021 - 15:57

Höfundar

Stórsöngkonan Guðrún Árný Karlsdóttir veit fátt dýrmætara en að fá að syngja í jarðarförum. Þó aðstæðurnar séu erfiðar finnur hún mikinn kraft þegar hún kemur fram á sorgarstundum og líður sem ekkert fái henni haggað á meðan á flutningi stendur. Eftir hann brotnar hún saman með samúð í hjarta til syrgjenda.

Stórsöngkonan Guðrún Árný Karlsdóttir varð landsþekkt árið 2006 þegar hún tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins með laginu Andvaka. Lagið var ekki valið til þátttöku enda atti hún kappi við sjálfa Silvíu Nótt, en hefur hins vegar lifað með þjóðinni síðan og er enn spilað og sungið við hin ýmsu tilefni í dag. Frægðarsól hennar hefur risið síðan jafnt og þétt og það er nóg að gera hjá henni. Í dag starfar hún meðfram tónlistarflutningi sem tónmenntakennari í Hvaleyrarskóla og svo var hún að setja saman nýjan kór sem hún stýrir. Guðrún Árný kíkti í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sagði frá æskunni og framtíðaráformum.

Sigraði söngkeppni SAMFÉS í níunda bekk

Guðrún er fædd í Reykjavík og á sex systkini. Hún flutti í Varmaland með móður sinni og manni hennar þegar hún var átta ára. Ári síðar fluttist hún á Skóga undir Eyjafjöllum þar sem hún bjó til tólf ára aldurs. Síðan þá hefur hún ekki haggast úr Hafnarfirðinum, þar sem hún býr í dag. „Mér finnst ég vera Hafnfirðingur,“ segir hún.

Hún var í níunda bekk þegar hún tók þátt í og sigraði söngvakeppni SAMFÉS. Þá rann endanlega upp fyrir henni að hún hefði ansi góða rödd. „Það var pínulítið sjálfsöryggi sem ég fékk,“ segir hún.

Og giggin hrönnuðust fljótt upp, hún var fengin upp á hin ýmsu svið í kjölfarið. „Mér finnst ég hafa byrjað öfugu megin. Flestir vinna sig upp í stóru tónleikana, á meðan ég var strax gripin í stóru batteríin. Ég þurfti að reyna að benda fólki á að ég vildi líka vera í partíunum,“ segir hún og hlær.

Í jarðarför fær henni ekkert haggað

Að syngja í jarðarförum er eitt af því dýrmætasta sem Guðrún gerir. Hún kveðst elska að fá að koma fram við slík tilefni, því þó það sé erfitt finnur hún svakalegan kraft. „Það haggar mér ekkert,“ segir hún. „En svo er ég kannski búin með síðasta tóninn og fer að hágráta. Get ekki hætt að gráta.“

Þá finnur hún til með fólkinu í kirkjunni í þeirra sorg. Hún fer alltaf þakklát heim eftir að syngja í jarðarför og kemst ekki auðveldlega úr jafnvægi. „Frekjukastið er ekki eins alvarlegt hjá krakkanum, maður er bara: oh ég skal bara knúsa þig.“

Kennir börnunum að tónlist er frjáls en ekki heftandi

Guðrún er sem fyrr segir tónmenntakennari og starfar í Hvaleyrarskóla þar sem hún kennir börnum að spila eftir eyranu og hvað nóturnar heita. „Ég er að láta þau læra eins mikið og hægt er í þennan tíma sem ég hef þau, því svo geta þau valið hvort þau fari í meira nám eða þetta verði bara það eina sem þau læra,“ segir hún. „Þá vil ég að þau fatti að tónlistin er lifandi, skapandi og frjáls. Ekki heftandi.“

Ekki laust kvöld fram í janúar

Hún er stundum spurð hvers vegna hún sé að kenna og svarar á þann veg að það sé mikilvægt fyirr sig að vera með fastan punkt í vikunni og skipulag. „Ég kenni bara í miðri viku fyrir hádegi í hálfu starfi. Geri fullt gagn og gleð þessi litlu kríli og þá veit ég að það er þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur,“ segir hún.

Og það eru fleiri fastir liðir í dagskrá Guðrúnar. Fyrstu helgi í mánuði spilar hún til dæmis á Krydd veitingahúsi í Hafnarfirði fyrir gesti og einu sinni í mánuði treður hún upp í Kolamessu í Kolaportinu. Næstsíðustu helgi mánaðar er hún í Keiluhöllinni að leika fyrir söng og dansi á meðan fólk fellir keilurnar. Svo er margt fleira um að vera í kringum skipulagið. „Ég er að fara á Græna Hattinn fyrir norðan um miðjan október. Svo eru það bara fyrirtæki og stórafmæli,“ segir Guðrún. „Ég er mjög stolt að segja frá því að ég á ekki laus kvöld fyrr en í janúar. Mér finnst stórkostlegt að vera komin á þennan stað og ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut.“

Frábært að syngja með nýja kórnum

En hún lætur þessa þéttu dagskrá ekki duga. Hún var á spjalli við vinkonu sína sem hafði verið í Danmörku sem sagði henni frá nokkurskonar drop in kór, þar sem ekki þurfti að skuldbinda sig mikið en mæta þegar maður væri í stuði til að þenja raddböndin. „Ég bara vá. Þú mætir ef þú ert í stuði þann dag bara,“ segir Guðrún sem fékk hugljómun, hafði samband við Hafnarfjarðarbæ, reddaði húsnæði og hóaði saman fimmtíu manns sem mættu á fyrstu æfinguna, fólk á aldursbilinu sextán til sextíu og sjö ára og af öllum kynjum. „Þetta var frábært,“ segir Guðrún sem hefur ekki fundið nafn fyrir hópinn en hlakkar til að halda áfram.

Rætt var við Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Magni og Guðrún Árný knúsuðust á Akureyri

Tónlist

Hvernig væri að geta flogið burt?