Rannsaka aðferðir til að útrýma riðuveiki í sauðfé

20.09.2021 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Riðusérfræðingar frá fjórum löndum hafa frá því í vor leitað nýrra arfgerða í íslenska sauðfjárstofninum sem eiga að vernda sauðkindina fyrir riðusmiti. Þetta er fyrsta rannsóknin af þessu tagi sem gerð er hér á landi í tuttugu ár. Meðal annars verða tekin sýni úr 2.500 kindum á Íslandi og Grænlandi.

Undir forystu Karólínu Elísabetardóttur, bónda í Hvammshlíð í Skagabyggð, var í vor hafin leit að erlendum rannsóknum sem sýna fram á lausnir gegn riðuveiki.

Sérfræðingar frá fjórum löndum 

„Og þá voru fyrstu skrefin tekin við að safna upplýsingum og tala við sérfræðinga. Og svo eiginlega, hvað getum við gert til að leysa málin hér á landi,“ segir Karolína. Að verkefninu koma sérfræðingar frá Þýskalandi, Englandi og Ítalíu, auk íslenskra dýralækna og líffræðinga.

Verndandi arfgerð hafi fundist hér fyrir 20 árum

Karolína segir að rétta leiðin sé að finna verndandi arfgerðir gegn riðuveiki. Hefðbundnar arfgerðir, sem dugi í flestum sauðfjárkynjum erlendis, hafi til þessa ekki fundist í íslenska fjárstofninum. Hins vegar sé til sjaldgæf arfgerð í ítölsku sauðfé og til séu heimildir um að þessi tiltekna arfgerð hafi fundist hér á landi. „Fyrir 20 árum var gerð rannsókn þar sem  akkúrat þessi arfgerð kom fram.“

Tekin verði sýni úr 2500 íslenskum kindum

Til að leita markvisst að þessari arfgerð sé nú hafin viðamikil sýnataka og rannsóknir. Til stendur að skoða samtals 2.300 kindur um allt land, auk 200 kinda af íslenskum fjárstofni á Grænlandi. „Og samhliða er verið að greina riðustofnana sem eru hér á landi,“ segir Karolína. „Það er ekki bara einn stofn sem veldur sjúkdómnum heldur fleiri. Og það hefur aldrei verið skoðað hvaða stofnar eru til hér á landi.“

Tveir kynningarfundir fram undan

Og til standi að kynna bændum verkefnið á tveimur kynningarfundum á Norðurlandi, þar sem þýskur prófessor mun meðal annars kynna niðurstöður og segja frá rannsókninni. Fundirnir verða í Svalbarðsskóla í Þistilfirði á fimmtudag og í Löngumýri í Skagafirði á sunnudag.