Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óvíst hvaða aldurshópar frá örvunarskammt

20.09.2021 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sóttvarnalæknir telur ólíklegt að fólki yngra en sextíu ára verði boðið upp á örvunarskammt af bóluefni við COVID-19 hér á landi. Þessa dagana fara fram örvunarbólusetningar fyrir fólk sem er eldra en sjötugt.

„Það er bara ekki alveg ljóst. Það eru bollaleggingar hjá okkur uppi um það hvort við gefum þriðja skammtinn niður í sextíu ára en við myndum nú ekki fara mikið neðar en það. Þannig að þetta eru þeir hópar sem við teljum þurfa að gefa þriðja skammtinn. Síðan þurfum við að fylgjast með hvort við þurfum að gefa öllum þriðja skammtinn, það er ekki ljóst á þessari stundu og engin ákvörðun verið tekin um það. Því það getur verið að ónæmið minnki með tímanum sem krefjist þess að það þurfi að gefa þriðja skammtinn,“ segir Þórólfur Guðnason. 

Bólusetning yngri barna ekki verið rædd alvarlega

Greint var frá því í morgun að prófanir á Pfizer-bóluefninu við COVID-19 gæfu til kynna að efnið væri öruggt fyrir börn á aldrinum 5-11 ára, samkvæmt yfirlýsingu bandaríska lyfjafyrirtækisins Pfizer og þýska lyfjaþróunarfyrirtækisins BioNTech. Fyrirtækin hafa nú þegar staðfest að þau muni sækja um markaðsleyfi fyrir bóluefninu fyrir þennan aldurshóp, en í minni skömmtum en fyrir fullorðna og börn 12 ára og eldri. Prófanir á börnum frá sex mánaða aldri eru enn í gangi. 

Þórólfur segir enn óvíst hvort mælt verði með efninu fyrir börn yngri en 12 ára hér á landi. „Það hefur ekkert verið nein alvarleg umræða um það. Auðvitað á lyfjastofnun Evrópu eftir að fjalla um þær rannsóknir sem liggja að baki þessari yfirlýsingu. Síðan þurfa menn bara að vega og meta faraldurinn og hvort að ávinningurinn af því að bólusetja yngri börn vegi upp á móti hugsanlegum aukaverkunum. En á þessari stundu held ég að það sé ekki tímabært að segja neitt af eða á um það,“ segir hann. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV