Lætur reyna á þungunarrofslöggjöf

FILE - In this Wednesday, Sept. 1, 2021 file photo, a security guard opens the door to the Whole Women's Health Clinic in Fort Worth, Texas. A Texas law banning most abortions in the state took effect at midnight. (AP Photo/LM Otero, File)
 Mynd: AP
Læknir í Texas-ríki í Bandaríkjunum hefur greint frá því að hann hafi framkvæmt þungunarrof hjá konu sem var gengin meira en sex vikur á leið. Læknirinn tilkynnir þetta í innsendri grein í Washington Post en ljóst er að hann vill láta reyna á ný lög, sem tóku gildi í Texas í byrjun mánaðar.

Með lögunum, sem stuðningsmenn kalla hjartsláttarlögin, er þungunarrof óheimilt um leið og hægt er að greina hjartslátt fósturs en það gerist venjulega eftir um sex vikur. Engar undanþágur eru gerðar nema líf móður sé í hættu.

Lögunum hefur verið mótmælt kröftuglega. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt lögin árás á réttindi kvenna og að þau gangi í berhögg við fordæmisgefandi úrskurð Hæstaréttar í máli Roe gegn Wade frá árinu 1973 en niðurstaða hans varð til þess að ólögmætt væri að banna þungunarrof.

„Ég skildi vel að það gætu verið lagalegar afleiðingar – en ég vildi ganga úr skugga um að Texasbúar misstu ekki tækifærið til að láta reyna á þessi lög, sem augljóslega ganga gegn stjórnarskrá,“ skrifar læknirinn, Alan Braid.

Hæstiréttur Bandaríkjanna, sem er að meirihluta skipaður íhaldssömum dómurum úr ranni repúblikana, neitaði fyrr í mánuðinum að taka málið til skoðunar en Biden forseti hefur boðað að dómsmálaráðuneytið muni lögsækja Texas-ríki vegna lagasetningarinnar.