HK vann Stjörnuna og felldi Fylki

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

HK vann Stjörnuna og felldi Fylki

20.09.2021 - 21:19
HK og Stjarnan mættust í síðasta leik 21. umferðar úrvalsdeildar karla í kvöld. HK náði í sigur þrátt fyrir að spila síðustu 15 mínútur leiksins einum færri. Sigurinn tryggir þó ekki að liðið haldi sér í úrvalsdeildinni á næsta ári en það tryggir að Fylkismenn eru fallnir niður í 1. deild.

Þorsteinn Már Ragnarsson kom boltanum í netið fyrir Stjörnumenn á 12. mínútu en brot var dæmt í aðdraganda marksins og það stóð því ekki. Ekkert var skorað í fyrri hálfleik og ekki dró til tíðinda fyrr en á 75. mínútu þegar Birnir Snær Ingason fékk sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt. Birnir féll við inni í teig Stjörnunnar og dómari leiksins spjaldaði hann fyrir leikaraskap. 

Þrátt fyrir að vera einum færri náðu HK-ingar að skora. Á 79. mínútu átti Stefan Ljubicic sendingu fyrir markið, yfir teiginn og á Valgeir Valgeirsson sem skaut viðstöðulaust og skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni. Þetta reyndist eina mark leiksins og HK þar með, í það minnsta tímabundið, komið úr fallsæti og er með 20 stig í 10. sæti. Stjarnan er enn í 7. sæti eftir leikinn með 22 stig, jafn mörg stig og Leiknir í 8. sæti. 

Á sama tíma er það staðfest að lið Fylkis er fallið en liðið er sem stendur með 16 stig á botni deildarinnar og getur aðeins náð ÍA að stigum sem nægir ekki til að halda þeim í deild þeirra bestu. Hvaða lið fellur með Árbæingum kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en í loka umferðinni en þrjú lið koma til greina, Keflavík, sem er með 21 stig í 9. sæti, HK með sín 20 stig í 10. sæti og ÍA sem er með 18 stig í 11. sæti. Í síðustu umferðinni mætast einmitt Keflavík og ÍA en HK fer í heimsókn á Kópavogsvöll þar sem liðið mætir Breiðablik.