Fyrsti íslenski skautarinn á úrtökumóti fyrir ÓL

Mynd með færslu
 Mynd: Skautasamband Íslands

Fyrsti íslenski skautarinn á úrtökumóti fyrir ÓL

20.09.2021 - 16:38
Aldís Kara Bergsdóttir, skautari, verður fyrsti íslenski skautarinn til að keppa á úrtökumóti fyrir Ólympíuleika þegar hún tekur þátt á Nebelhorn Trophy í Þýskalandi 21. - 25. september.

Vetrarólympíuleikarnir fara fram í Peking í Kína í febrúar á næsta ári, 2022, og er mótið sem Aldís Kara keppir á í vikunni síðasta úrtökumót í listskautum fyrir leikana. Margir af topp skauturum heims munu taka þar þátt. 

Aldís Kara er að keppa í fyrsta sinn í fullorðinsflokki í ár en fyrir var hún sterkur keppandi í unglingaflokki og setti hvert Íslandsmetið á fætur öðru. Hún var sömuleiðis fyrst íslenskra skautara til að keppa á Heimsmeistaramóti unglinga, en það gerði hún árið 2020. 

Liðsstjóri ferðarinnar mun deila innsýn í keppnisferðina í gegnum Instagram-síðu Skautasambands Íslands og þá verður sýnt beint frá mótinu á netinu.