Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Er einhver sem hefur tekið 15 ár í að reisa spítala?“

Mynd: RÚV / Samsett mynd
Það er óviðunandi hversu langan tíma hefur tekið að byggja nýjan Landspítala ekki síst í ljósi þess að sá sem fyrir er er löngu hættur að standast nútímakröfur sjúkrahúsa. Efla þarf eftirlit með heilbrigðiskerfinu. Þetta er mat formanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Sjúkraliðafélags Íslands.

Þær Guðbjörg Pálsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Sanda B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands ræddu stöðu heilbrigðiskerfisins á Morgunvakt Rásar 1 í morgun. Guðbjörg sagði að starfsumhverfi væri eitt af þeim málum sem helst brynnu á heilbrigðisstarfsfólki.

Þær sögðu eftirtektarvert að stjórnmálaflokkarnir hefðu talsvert meiri áhuga á heilbrigðiskerfinu núna en fyrir síðustu þingkosningar. Það hafi þurft heimsfaraldur til þess að stjórnmálamenn áttuðu sig á mikilvægi góðs heilbrigðiskerfis.

Sáu ljósið í gegnum covid

„Fyrir okkur sem erum í þessum geira og lengi verið á vaktinni og áttað okkur á að þetta sé mál málanna. En þarna hafa þeir, í gegnum covid, séð ljósið,“ sagði Guðbjörg. 

„En svo sjáum við hverju þetta skilar okkur, aftur á móti. Við líka bíðum bara eftir því að þó það hafi þurft covid, þá þurfum við að sjá hverju þetta muni skila okkur með nýrri ríkisstjórn. Hverjar verða áherslubreytingarnar,“ sagði Sandra.

Guðbjörg sagði að hjúkrunarfræðingar væru langþreyttir vegna mikils álags í faraldrinum og Sandra tók undir það: „Okkar fólk er orðið langþreytt og farið að finna til sín með að þurfa að fá frí. Og það hefur verið sú staða uppi að okkar fólk hefur ekki komist í frí, sem aðrir í samfélaginu hafa getað gert.“

Spurð að því hvað væri helst að í heilbrigðiskerfinu svaraði Guðbjörg því að mönnun væri þar efst á blaði og að það yrði að vera fyrsta verkefni heilbrigðisráðherra eftir kosningar að bæta þar úr. Opna þyrfti fleiri hjúkrunarheimili og auka heimaþjónustu.

„Svo er hitt stóra málið og það er blessaður Landspítali þó hann sé ekki aðalmálið í öllu, en það er starfsumhverfið og það er fyrir neðan allar hellur - við sáum það í faraldrinum. Þetta náttúrulega gengur ekki - er einhver þjóð sem hefur tekið sér 10-15 ár í að reisa einn spítala?“ spurði Guðbjörg.

Hún sagði að núverandi húsnæði Landspítala væri löngu hætt að standast þær kröfur sem gerðar eru til sjúkrahúsa. „Það eru kannski 2-3 einbýli á einni stórri deild, þar fyrir utan eru 2-6 klósett á heilli deild fyrir 20 manns.
Við erum með 4 og jafnvel 6 manna stofur þar sem allir koma saman,“ sagði Guðbjörg og bætti við að vinnuaðstaða starfsfólks spítalans væri óviðunandi.

Segir fjóra starfsmenn hafa eftirlit með öllu heilbrigðiskerfinu

Sandra sagði að efla þyrfti eftirlit með heilbrigðisþjónustu og þeim 10.000 sem starfa innan heilbrigðiskerfisins, sem sé á hendi Embættis landlæknis. Það síðasta sem ég heyrði var að það væru fjórir einstaklingar, fjögur stöðugildi sem sinni eftirliti og eftirlitsskyldu með öllu heilbrigðiskerfinu. Er þetta rétt gefið?“ spurði Sandra.

„Er hægt að halda uppi kerfi og þjónustu sem á að fylgja eftir því að allir ferlar, allt regluverk og allt starfsumhverfið í heilbrigðiskerfinu öllu; að flæðið á milli eininga þar sem fólk sækir þjónustuna -  að það sé eins og við viljum hafa það. Mér er það til efs að þessi eining hjá Landlæknisembættinu hafi  getu til að sinna eftirlitsskyldu sinni, þannig að ég held að það vanti stórlega í þar,“ sagði Sandra.