Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Byltur og björgunaraðgerðir í borginni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögregla og björgunarsveitir höfðu í mörg horn að líta í gærkvöld og í nótt. Nokkuð var um byltur og önnur óhöpp. Björgunarsveitir liðsinntu göngumanni í vanda og strönduðum sjófarendum.

Kona varð fyrir bíl í miðborginni í gær, slasaðist á fæti og mjöðm og var flutt með sjúkrabíl á bráðamóttökuna í Fossvogi. Ekið var á ljósastaur í Kópavogi eftir að ökumaður missti stjórn á bíl sínum.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu slasaðist enginn við ákeyrsluna en bíllinn var óökufær á eftir.

Nokkuð var um að fólk dytti, annað hvort á göngu eða af hjólum, kona slasaðist á höfði þegar hún féll á rafmagnshlaupahjóli í Grafarvogi og ofurölvi maður datt á höfuðið í Efra-Breiðholti. Bæði voru flutt á bráðamóttökuna. Bráðaliðar aðstoðuðu mann sem datt og slasaðist í Hafnarfirði og lögregla ók honum svo heim.

Maður var handtekinn á Kjalarnesi vegna heimilisofbeldis og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar.

Líkt og fréttastofa greindi frá í gærkvöldi komu björgunarsveitir fjórum mönnum til bjargar við Akurey í Kollafirði eftir að slöngubátur þeirra strandaði. Þeir voru fluttir á bráðamóttöku.

Björgunarsveitir leituðu manns í Esjunni í gærkvöld í vondu veðri. Hann fannst tveimur og hálfum tíma eftir að hjálparbeiðni barst og var komið til síns heima. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV