Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ætti ekki að reka opinberar stofnanir eins og fyrirtæki

Mynd: RUV / RUV
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, segist vilja hverfa frá þeirri stefnu að opinberar stofnanir séu reknar eins og þær séu fyrirtæki. Það sé afleiðing nýfrjálshyggjunnar og gangi ekki upp. Hagræðingarkrafa hafi verið sett á Landspítalann í miðjum covid-faraldri. Efla þurfi heilbrigðiskerfið úti á landi og læra megi af mesta nýsköpunarafreki seinni ára með göngudeild covid. Þetta vilji Sósíalistar innleiða í þjónustu úti á landi og við aldraða.

Gunnar Smári segir að auðvaldið á Íslandi hafi náð að hafa umtalsverð áhrif á stjórnmálin og ríkisvaldið. Fyrir bragðið sé ríkisvaldið að þjóna fáum í stað þess að þjóna fjöldanum. 

Að sögn Gunnars Smára var efnahagshrunið 2008 um leið hrun nýfrjálshyggjunnar. Hann segir marga hafa áttað sig á því í kjölfarið að sósíalismi sé eina raunverulega svarið við henni.

Sósíalisminn boðar að sögn Gunnars Smára að það sé sameiginlegt verkefni okkar að byggja upp gott samfélag.  Að hans mati er gallinn á stefnu VG og Samfylkingarinnar sá að forystan hafi tekið drauma og kröfur almennings og ritskoðað á þann hátt að það falli að borðinu þar sem auðvaldið ræður í raun öllu.

Fréttastofa RÚV
Fréttastofa RÚV