Að græða og gera góðverk

20.09.2021 - 20:00
Efnahagsmál · Erlent · Bækur · Svindl
Mynd með færslu
 Mynd: Penguin books - pe
Bókin ,,The Key Man,“ eða Lykilmaðurinn, fjallar um ris og fall pakistansks viðskiptajöfurs, Arif Naqvi. Tveir blaðamenn Walll Street Journal, Simon Clark og Will Louch rekja sögu Naqvi sem höfðaði til milljarðamæringa og stofnanafjárfesta með boðskap um að fjárfesta til að bæta heiminn.

Fjárfestar eins og Bill Gates stofnandi Microsoft, þróunarstofnanir og lífeyrissjóðir lögðu alls þrjá milljarða Bandaríkjadala í sjóði Naqvis til að fjárfesta í góðum málefnum í Asíu og Afríku.

En meðan Naqvi boðaði fagnaðarboðskap gróða í þágu góðverka fór rúmlega milljarður dala af fé fjárfesta í snekkju, einkaþotu og rándýra lifnaðarhætti Naqvis. 

Arif Naqvi við hliðina á Branson

Að sitja fyrir svörum 2014 ásamt hinum ofurfræga Richard Branson stofnanda Virgin flugfélagsins á samkomu sem frumkvöðullinn Jeff Skoll heldur árlega, sýndi og sannaði frægð Arif Naqvis. Skoll auðgaðist á netfyrirtækinu Ebay og stofnun hans heldur á lofti merkjum kapítalisma og félagslegra umbóta. 

Boðskapur hins pakistanska Naqvis var í þessum anda: græða, til að bæta lífsafkomu í Asíu og Afríku. Hann flaug um heiminn á einkaþotu sinni til að boða þetta fagnaðarerindi og mældi árangurinn í fjárfestingunum í Abraaj, sjóðnum sem hann stofnaði 2002. 

,,Metnaður” í anda Nelson Mandela

Einkunnarorð Skoll-samkomunnar 2014 var ,,metnaður,“ með fordæmi Nelson Mandela í huga, hvorki meira né minna. Naqvi byrjaði á að þakka fyrir boðið, hann hlakkaði til samræðnanna. Hinn eldhressi Branson klappaði honum á öxlina: hann virtist svolítið þreytulegur, þyrfti kannski bara tvöfaldan espresso. Nei, svona væri að vera of mikið á flugi, sagði Naqvi.

Vel æfður boðskapur sm margir vildu heyra

Naqvi náði þó nógum kröftum þarna á sviðinu til að fara með vel æfðan boðskap. Um fjárfestingar í þágu betra lífs í Asíu og Afríku, þessum vaxtarmörkuðum framtíðarinnar, og Abraaj sjóðurinn gegnsýrður af góðverkum. 

Allir áttu að smitast af gjafmildisveirunni

Þeir vildu að allir starfsmenn sjóðsins, í viðbót við 300 þúsund starfsmenn fyrirtækjanna, sem þeir hefðu fjárfest í, væru smitaðir af gjafmildisveirunni, gefa meir og meir. 

Byrjað að svindla til að fela tap og að fé fór til Naqvis

En það var kannski fleira en flugferðirnar sem tóku á Naqvi þarna 2014. Eins og blaðamennirnir Simon Clark og Will Louch segja frá í bók sinni, The Key Man, eða Lykilmaðurinn: Abraaj-sjóðurinn hafði tapað verulega á óviturlegum fjárfestingum. Í stað þess að viðurkenna tapið, var það falið. 

Naqvi og nokkrir nánir samstarfsmenn byrjaðir á bókhaldsæfingum sem þeir vissu að voru ólöglegar. Peningar færðir milli sjóða, vafasöm lán, nýtt fé fjárfesta fór í annað en fjárfestingar. Öll svikahrappabrögð sem hægt var að hugsa sér. En ekki aðeins til að fela tap heldur einnig sífellt streymi af milljónum dala í leynifélag Naqvis á Cayman eyjum.

Naqvi fékk alla og Bill Gates með sér

Naqvi hafði náð talsambandi við alla sem máli skiptu í fjárfestingum í Asíu og Afríku. Alþjóðabankinn, opinberar þróunarstofnanir og lífeyrissjóðir fjárfestu í Abraaj. Naqvi plægði akurinn á samkomum eins og árlegum Davos-fundi World Economic Forum, innan um leiðtoga stjórnmála og viðskipta.

Boðskapurinn alltaf yfirvegaður, hæfði prófessorslegum svip Naqvis. Eins og þeir Clark og Louch benda á: boðskapurinn um gróða og góðverk lá í loftinu, Naqvi reið þá bylgju og leiðtogar viðskiptalífsins vildu svo gjarnan trúa þessum boðskap.

Naqvi og Gates saman á Davos-sviðinu

Í janúar 2018 var Naqvi enn á Davos-sviðinu, nú með Bill Gates og fleirum. Gates, einn auðugasti maður heims, hefur fjárfest grimmt í heilbrigðismálum og þá einnig í sjóði Naqvis. Naqvi beitti bragði sem hann notaði mikið: hann skjallaði Gates eins og hann gat, ekki svo mikið að það væri ósmekklegt en já, nefndi og vísaði óspart í Gates svona eins og til að tengja þá tvo saman.

Hann ætti það sammerkt með Bill að vera bjartsýnn, glasið hálffullt en ekki hálftómt.

Svikaþefurinn fannst langar leiðir

Gates hins vegar leit helst ekki á Naqvi og yfirgaf sviðið um leið og spjallið var búið. Það sem Gates vissi og Naqvi vissi að Gates vissi, var að Andrew Farnum sjóðsstjóri hjá Gates hafði verið að spyrja starfsmenn Abraaj óþægilegra spurninga. Eftir kynni af WorldCom svindlinu 2002, fann Farnum svikaþefinn langar leiðir.

Fjárdráttur upp á tæpan milljarð dala

Nokkrum dögum eftir Davos birti Wall Street Journal fyrstu greinina um meint svindl Naqvis. Abraaj sjóðurinn fór í þrot. Nú ljóst að Naqvi dró að sér 780 milljónir Bandaríkjadala, afdrif 385 milljóna óklár. Samtals yfir milljarður dala af þeim þremur milljörðum, sem sjóðurinn fékk frá fjárfestum undir lokin, fór í annað en fjárfestingar. Naqvi var handtekinn í London 2019 og er í nokkurs konar stofufangelsi meðan bandarísk yfirvöld vinna í að fá hann framseldan.

Stofnanafjárfestir ófúsir að ræða svindl Naqvis

Í bókinni hnykkja Louch og Clark á því hversu óviljugir stofnanafjárfestar hafa verið að ræða málið, bæði opinberar stofnanir og lífeyrissjóðir. Eins og menn þar vilji draga sem minnstan lærdóm af hvernig þeir féllu fyrir fagurgala Naqvis. Sem er vissulega áhyggjusamlegt.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir