Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Víkingar í draumalandi eftir lygilegar lokamínútur

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Víkingar í draumalandi eftir lygilegar lokamínútur

19.09.2021 - 18:08
Víkingur Reykjavík er í draumastöðu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn eftir að liðið vann KR í dag á dramatískan hátt þar sem markvörður Víkinga varði víti frá KR á síðustu sekúndunni. Á sama tíma tapaði Breiðablik fyrir FH þar sem Árna Vilhjálmssyni mistókst að skora úr vítaspyrnu fyrir Blika.Víkingar eru því með eins stigs forystu fyrir lokaumferðina.

Gríðarleg spenna var í titilbaráttunni í efstu deild karla í fótbolta í dag þar sem ljóst var að úrslitin gætu ráðist. Ef Breiðablik myndi vinna FH í Kaplakrika á sama tíma og Víkingur Reykjavík myndi tapa stigum gegn KR á útivelli væri Íslandsmeistaratitillinn í höfn hjá Blikum.

Í Vesturbæ þurftu áhorfendur ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. Það kom strax á níundu mínútu og það voru heimamenn sem skoruðu. Kennie Chopart fékk þá nóg tíma til að koma með góða fyrirgjöf og þar mætti Kjartan Henry Finnbogason á ferðinni og skoraði. 

Biðin eftir næsta marki var svo enn styttri. Víkingar hirtu þá boltann á miðjum vellinum, Pablo Punyed brunaði í átt að marki og lagði boltann á Atla Barkarson sem hamraði honum í slá og inn, stórglæsilegt mark. Liðin héldu svo áfram að sækja til skiptist út fyrri hálfleikinn en mörkin urðu ekki fleiri og staðan því 1-1 í hálfleik. 

Bæði lið héldu áfram að skapa sér færi í upphafi síðari hálfleiks. Víkingar vissu að jafntefli myndi duga þeim skammt og settu þeir því allt kapp í sóknarleikinn og skiptingar Arnars Gunnlaugssonar báru mið af því. 

Sóknarþungi Víkings skilaði árangri því á 87. mínútu skoraði Helgi Guðjónsson. Logi Tómasson tók hornspyrnu og sendi fastan bolta inn í teig þar sem Helgi náði að koma boltanum yfir línuna og allt varð vitlaust í stúkunni.

Dramatíkin náði hámarki í uppbótartíma þegar að KR fékk víti og allt sauð upp úr í kjölfarið. Víkingar mótmæltu harðlega og varamarkvörður þeirra, Þórður Ingason, hljóp inn í pakkann og Kjartan Henry Finnbogason virtist taka á móti honum þar með hnefahöggum. Báðir leikmenn fengu rautt spjald fyrir sinn þátt í slagsmálunum. Þorvaldur Árnason, dómari leiksins, náði að lokum að róa leikmenn niður og eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómara dæmdi hann víti. Pálmi Rafn fór á punktinn og mark frá KR myndi þýða að Breiðablik yrði í bílstjórasætinu fyrir lokaumferðina. Ingvar Jónsson gerði sér lítið fyrir og varði vítið og Víkingur fór því með sigur af hólmi. 

FH vann toppliðið

Breiðablik fékk fyrsta færi leiksins þegar Gísli Eyjólfsson átti gott skot sem Atli Gunnar varði vel í markinu. Á næstu mínútum voru það FH-ingar sem stýrðu leiknum og fengu nokkur álitleg færi. Sóknir Breiðabliks voru þó ávallt hættulegar. 

Leikurinn fjaraði nokkuð út eftir fjöruga byrjun en á 38. mínútu komst FH yfir. Matthías Vilhjálmsson fleytti boltanum áfram eftir hornspyrnu og Pétur Viðarsson stangaði boltann í netið í kjölfarið og staðan orðin 1-0. 

Leikmönnum Breiðabliks gekk ögn betur að halda boltanum innan liðsins í seinni hálfleik en þeim gekk illa að vinna glufur á vörn FH. Á 58. mínútu gerði Óskar Hrafn sína fyrstu skiptingu þegar Andri Rafn Yeoman kom inn á fyrir Gísla Eyjólfsson. Skömmu síðar fengu Blikar hættulegt færi þegar Viktor Örn átti gott skot eftir aukaspyrnu en Atli Gunnar varði vel. Þarna var pressa Breiðabliks orðin mikil. 15. mínútum fyrir leikslok fékk Breiðablik víti þegar Guðmundur Kristjánsson braut á Árna Vilhjálmssyni. Árni fór sjálfur á punktinn en skaut himinhátt yfir markið. Strax í kjölfarið brunaði Breiðablik aftur í sókn og nú komst Andri Rafn í gott færi, Atli Gunnar varði í markinu og hársbreidd munaði að Jason Daði hefði náð til boltans á fjærstöng. 

Á lokamínútum leiksins setti Breiðablikallt kapp í að jafna leikinn og FH-ingar áttu þá nokkuð hættulegar skyndisóknir. Ekki urðu mörkin þó fleiri og leiknum lauk með 1-0 sigri FH.