Vegakerfið ekki hannað fyrir blandaða samgöngumáta

19.09.2021 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Nú stendur yfir evrópska samgönguvikan þar sem bæir og borgir víða um Evrópu taka þátt í átakinu. Reykjavík og Akureyri eru meðal þátttakenda. Mikilvægt er að mati hjólreiðamanns að endurhugsa vegakerfið til að auðvelda almenningi að nota hjólið oftar.

Fyrst og fremst hvatningarátak

Átakið samevrópska hefur verið starfrækt frá árinu 2002. Jón Þór Kristjánsson upplýsingafulltrúi Akureyrarbæjar segir Akureyri hafa tekið þátt undanfarin ár.

„Samgönguvikan er fyrst og fremst hvatningarátak. Þetta er svona vitundarvakning þar sem bæir og borgir eru að hvetja íbúa sína til þess að notast við umhverfisvæna og heilsusamlega samgöngumáta og skilja þá bílinn alla vega oftar eftir heima. Við erum að nota okkar miðla til þess að deila fjölbreyttu efni til að hvetja fólk til að nota heilsusamlega og umhverfisvæna samgöngumáta,“ segir Jón Þór.

Akureyri bílamiðaður bær

Í ár fellur vikan á sérstaklega viðeigandi dagsetningar fyrir Ísland en hún hófst 16. september á degi íslenskrar náttúru og lýkur á bíllausa deginum 22. september.

Á Íslandi getur verið krefjandi að nota aðra samgöngumáta en einkabílinn. Ottó Elíasson, íbúi á Akureyri hjólar mikið í stað þess að nota bíl. Hann segir veðrið og brekkurnar vera krefjandi en rafhjól auðveldi að takast á við það. Vegakerfið sjálft sé hins vegar það sem þyrfti að bæta.

„Akureyri er bara svo bílamiðaður bær. Vegakerfið er bara ekkert hugsað fyrir hjólandi, það er svona stærsti þátturinn.  Að mínum dómi þá þyrfti að aðskilja hjólareinina frá gangandi og akbrautum og kannski á þessum stofnbrautum sérstaklega þar sem hámarkshraðinn er 50,“ segir Ottó.