Rekur síðasta naglann í kistu hjólhýsanna á Laugarvatni

19.09.2021 - 08:56
Mynd með færslu
Mikil umræða fór fram um brunavarnir á hjólasvæðinu eftir að eldur kom þar upp í september fyrir tveimur árum. upp  Mynd: Brunavarnir Árnessýslu
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur hafnað beiðni Samhjóls, samtaka hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, um að heimiluð verði fjögurra mánaða viðvera á hjólhýsasvæðinu og að hjólhýsin fái að standa þar yfir vetrartímann með stöðuleyfi. Þar með er endanlega ljóst að hálfrar aldrar sögu hjólhýsasvæðisins er lokið.

Ár er síðan sveitarstjórnin tók þá ákvörðun að loka hjólhýsahverfinu.

Ástæðan var sögð sú að öryggi fólks væri verulega ábótavant kæmi þar upp eldur.  Ekki væri hægt að réttlæta að sveitarfélagið myndi kosta uppbyggingu við að tryggja viðunandi brunavarnir.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi og slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu töldu sömuleiðis að ástandið á svæðinu væri með öllu óviðunandi með tilliti til brunavarna og öryggis fólks.  

Eigendur hjólhýsanna á Laugarvatni gáfust þó ekki strax upp og meðal þeirra sem lýsti yfir stuðningi við baráttu þeirra var Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.  „Hjólhýsin eru yfir 200 og hafa eigendur lagt í margvíslegan kostnað og vinnu við að útbúa sér sína sælureiti til áratuga,“ sagði Birgir á Alþingi í apríl. Eigendurnir hefðu viljað taka þátt í kostnaðinum við að tryggja brunavarnir og lagt til 20 milljónir.

Fram kom í umfjöllun Stundarinnar í vikunni að þeir hefðu meðal annars boðist til að kaupa brunabíl frá Hollandi.

Á fundi sveitarstjórnar á föstudag var farið yfir lagalegan grundvöll fyrir rekstri hjólhýsasvæðis og hvað þyrfti að gera ef sveitarstjórnin tæki þá ákvörðun að halda úti skammtímasvæði fyrir hjólhýsi í allt að fjóra mánuði á ári. 

Til þess að það gengi upp þyrfti engu að síður að ráðast í aðgerðir til að uppfylla öryggiskröfur vegna brunavarna. Auk þess þyrfti að gæta að samkeppnissjónarmiðum þar sem reksturinn kynni að vera í samkeppni við rekstur einkaaðila. 

Sveitarstjórnin samþykkti því að fyrri ákvörðun hennar stæði óbreytt og að samningar um hjólhýsasvæðið yrðu ekki endurnýjaðir.