Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ráðstefnan í Glasgow verður úrslitastund fyrir heiminn

19.09.2021 - 19:28
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Við eigum ekki annarra kosta völ en að ná árangri í Glasgow, segir David Moran sendiherra loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í borginni eftir aðeins nokkrar vikur. Hann segir ekki nóg að setja markmið, heldur þurfi að standa við þau. 

„Ráðstefnan í Glasgow verður úrslitastund fyrir heiminn.“ Þetta hefur Alok Sharma, forseti Loftslagráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sagt um COP26 eða 26. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í lok október. Að sama skapi tala vísindamenn um hana sem síðasta hálmstráið og flest eru sammála um að hún sé sú mikilvægasta frá því Parísarsamkomulagið var undirritað árið 2015. David Moran sendiherra COP26 í Evórpu, Mið-Asíu, Tyrklandi og Íran er sammála því. „Ég er sammála og sammála af því að aldrei hefur legið meira við. Að ákveða að skera niður útblástur og koma skikki á stefnumálin.“

Moran kom hingað til Íslands og ferðast nú um svæðið sem undir hann heyrir til þess að hvetja og aðstoða ríki við undirbúning fyrir ráðstefnuna. „Við væntum þess að ná fram mjög metnaðarfullri niðurstöðu þegar kemur að því að draga úr útblæstri. En einnig í aðgerðum til að vernda náttúruna og berskjaldaðar þjóðir. Og meira fé til að tryggja að fátæk lönd hafi þann stuðning sem þau þurfa,“ segir Moran. 

Vilja binda endi á kolanotkun í Glasgow

Í Glasgow blasir við það erfiða verkefni að fá 197 aðildarríki Parísarsamkomulagsins til þess að ná samstöðu um aðgerðir sem eiga að halda hlýnun jarðar innan einnar og hálfrar gráðu miðað við meðalhitastig við upphaf iðnbyltingar. Skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna sem var birt 9.ágúst sýnir að loftslagsbreytingar eru fyrst og fremst af mannavöldum. „Sérstakt þema á þessari ráðstefnu, vegna áhrifanna sem þau hafa, verður áherslan á að hætta kolanotkun. Við vildum gjarnan að á ráðstefnunni í Glasgow yrði bundinn endi á notkun kola,“ segir Moran. 

Hann er bæði ákveðinn og bjartsýnn um að Glasgow-ráðstefnan beri árangur. „Af því ég tel að við höfum um lítið annað að velja en að láta ráðstefnuna í Glasgow takast vel. Ástæðan fyrir því að ég er bjartsýnn er að fjölmargt fólk er sammála um að ráðstefnan nú sé vettvangurinn til að taka metnaðarfullar ákvarðanir sem munar rækilega um. Og því er alvara með að standa við það. Markmiðin duga ekki, við verðum að standa við þau.“