Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Óeðlilega há iðgjöld á ökutækjum“

19.09.2021 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Tryggingafélögin innheimta óeðlilega háar ökutækjatryggingar að sögn framkvæmdastjóra FÍB. Félagið hafi gert ítrekaðar athugasemdir sem tryggingafélgin hafi ekki svarað. Hagsmunasamtök þeirra, Samtök fjármálafyrirtækja hafi hinsvegar svarað í fjölmiðlum. Málið er nú á borði Samkeppniseftirlitslins.

 

Félag íslenskra bifreiðaeigenda telur að verðlagning ökutækjatrygginga hér á landi sé óeðlileg. Kostnaðurinn við þær sé mun hærri hér en í nágrannalöndunum og munurinn sé hið minnsta fimmtíu prósent. 

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir þessi gjöld sem eru lögbundin vera stóran lið í útgjöldum heimilanna. Tryggingafélögin fjögur hafi ekki svarað gagnrýni FÍB sem að þessu snúi. Það hafi hins vegar hagsmunasamtök þeirra gert, Samtök fjármálafyrirtækja, í aðsendri grein á Vísi fyrir skemmstu, þar sem formaður Samtakanna réttlætti verðlagningu tryggingafélaganna og hélt því fram að nálgun FÍB á málinu væri ekki rétt.

Runólfur segir að það verði að vera heilbrigð samkeppni á tryggingamarkaði.

„Hagsmunasamtökum fyrirtækja er skv. samkeppnislögum bannað að tjá sig almennt um verðlagningu eða kjör félagsmanna sinna því þá erum við komin út í einhvers konar samráð. Á grundvelli þess þá sendum við inn kvörtun til Samkeppniseftirlitsins um þessa óeðlilegu nálgun um að heildarsamtökin séu að tjá sig fyrir hönd fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Samkeppniseftirlitið tók kvörtunina upp og hefur sent Samtökum fjármálafyrirtækja erindi þar sem þau eru krafin um gögn og svör við áleitnum spurningum sem gætu varðar samkeppnislagabrot. Það er mjög mikilvægt að opinberir aðilar gæti að því að þessi markaður sem að er mjög stór útgjaldaliður heimilanna, þ.e.a.s. ökutækjatrygginar að það sé gott eftirlit með þeim og að það sé tryggt að það sé ekki verið að bjóða neytendum upp á óeðlileg iðgjöld og að okkar mati ofruiðgjöld.“

Hann segir allar ytri aðstæður hafa verið mjög hagfelldar á vátryggingamarkaði. Umferð hafi dregist saman og  slysum  fækkað.

„Samt hafa iðgjöld ökutækjatrygginga hækkað langt umfarm þróun verðlagsvísitölu og við teljum eðlilegt að það sé skoðað ofaní kjölinn hvað sé þarna að eiga sér stað.“

Á sama tíma hafi tryggingafélögin skilað methagnaði.

„Eftir sem áður hækka iðgjöldin alltaf. Þannig að það er bara eðlilegt að spurt sé hvað sé í gangi þarna og hættan er auðvitað sú, og sporin hræða, að menn á fákeppnismarkaði séu bara sáttir við það geta mjólkað viðskiptavini sína og séu í rauninni ekki að standa í samkeppni sín á milli til þess að lokka til sín viðskiptavini.“
 

 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV