Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hraunpollar byggjast upp í Geldingadölum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðiprófessor spáir því að virkni á gosstöðvunum næstu vikur verði mest í Geldingadölum. Þar byggjast nú upp hraunpollar. Því sunnar sem hraunpollarnir eru í Geldingadölum, segir Þorvaldur, þeim mun meiri líkur séu á að hraun flæði út úr Nátthaga. Nátthagi er mjög nálægt Suðurstrandarvegi. Dregið hefur úr óróa. Þorvaldur segir gosið hafa alla tilburði til að vera í gangi í einhver ár.

Virkni í óróamæli við Fagradalsfjall hefur minnkað síðasta sólarhring eftir líflega virkni síðustu daga. Óróamælirinn segir ekki alla söguna, segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðiprófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Hann segi til um yfirborðsvirkni sem hafi nú róast, það er gasútstreymið, en ekki sé hægt að útiloka að enn flæði inn í hraunið eftir innri rásum. 

„Það er mín tilfinning alla vega að þetta gos hafi alla tilburði að vera í gangi í einhver ár. En maður svo sem veit ekkert fyrir víst hvað það varðar. En það er ekkert sem er að segja okkur það að þetta gos sé að fara að hætta á morgun.“

Í dag eru sex mánuðir síðan byrjaði að gjósa við Fagradalsfjall á mjög heppilegum stað með tilliti til innviða því það er fjarri vegum og rafleiðslum. Og margir dalir hafa tekið við hrauninu; Meradalir, Geldingadalir og Nátthagi. Nú er þungamiðjan í Geldingadölum, segir Þorvaldur: 

„Við sjáum það að það byggjast upp hraunpollar í Geldingadölum og við sáum það náttúrulega bara í síðustu viku á þriðjudaginn að þegar þessir hraunpollar bresta og opnast að þá getur hraunið farið niður, sem sagt áfram, mjög hratt og farið þá mun lengra en undir svona venjulegum kringumstæðum. Því framar sem þeir eru í Geldingadölunum eða sunnar, getum við sagt, því meiri líkur eru á því að þetta hraun fari síðan að fylla verulega inn í Nátthaga og jafnvel að flæða út úr Nátthaganum,“ segir Þorvaldur.

Myndin sem fylgir fréttinni var tekin 27. apríl. Hraun hefur nú flætt yfir staðinn þar sem Þorvaldur stendur og gígbarmurinn hefur líklega hækkað um 100 til 200 metra.