Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Drukkinn barði rangt hús að utan og vildi komast inn

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sá um að koma drukknum manni heim til sín eftir að hann hafði farið húsavillt, ekki komist inn og því barið húsið allt að utan. Nokkuð var um ölvun á svæðinu auk þess sem kona hlaut brunasár af djústeikingarfeiti og unglingur datt og slasaðist.

Ofurölvi maður var handtekinn í miðborginni eftir að vegfarendur komu í veg fyrir að hann æki bifreið sinni á brott. Hann brást illa við afskiptum lögreglumanna og hafði í hótunum við þá.

Kona var flutt á bráðamóttöku með brunasár eftir að djúpsteikingarfeiti skvettist á hana að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er vitað um líðan hennar að svo stöddu. 

Kona hlaut höfuðárverka við að falla af hlaupahjóli og var flutt á bráðamóttöku líkt og sextán ár unglingur sem drukkinn datt á höfuðið og slasaðist. 

Lögreglan þurfti að vísa manni nokkrum út af bráðamóttöku. Þar hafði hann verið til vandræða og neitaði að hlýða starfsfólki sem bað hann um að yfirgefa svæðið.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV