Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Deila innan hótelfjölskyldu á borði Persónuverndar

19.09.2021 - 10:06
Mynd með færslu
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar því ekki beint. Mynd:
Persónuvernd telur að orð standi gegn orði í máli konu sem kvartaði undan því að myndskeið af viðkvæmu samtali hennar á starfsmannaskemmtun hótels hefði verið tekið upp án hennar vitundar. Hún taldi að eiginmanni sínum, sem er jafnframt einn af eigendum hótelsins, hefði verið sagt upp störfum vegna myndskeiðsins.

Fram kemur í úrskurði Persónuverndar að fjölskylda eiginmannsins reki hótel en ekki kemur fram hvaða hótel það er né hvar á landinu.  

Konan sagði að maðurinn sem tók upp myndskeiðið af samtali hennar á starfsmannaskemmtun hótelsins hefði sent það áfram til hótelstjóra hótelsins. Sá hefði sýnt það systkinum eiginmannsins og eiginmanninum í framhaldinu verið sagt upp störfum.  Hún taldi að upptakan væri enn á kreiki og það ylli henni „miklum sálrænum erfiðleikum.“

Af hálfu þeirra sem konan kvartaði undan kom fram að um árabil hefði verið stirt samband á milli tiltekinna aðila innan fjölskyldunnar sem rekja mætti að stórum hluta til rekstrar fjölskyldufyrirtækisins. Eiginmaður konunnar hefði yfirgefið fyrirtækið eftir erfiðleika í samskiptum við stjórnendur félagsins um árabil.  Ekkert myndskeið hefði átt þátt í þeim starfslokum.

Þá bentu þeir á að nærri fjögur ár væru liðin frá því myndskeiðið var tekið upp og það væri ekki lengur til.  Það hefði eingöngu verið til einkanota, því hefði aldrei verið miðlað áfram og því hafnað að það væri enn á kreiki.

Persónuvernd segir í úrskurði sínum að orð standi gegn orði og stofnunin hafi ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort myndskeiðinu hafi verið dreift.  Því væri ekki hægt að fullyrða að brotið hefði verið gegn rétt konunnar um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV