„Burt með kvótakerfið og völdin af auðvaldinu!“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Sósíalistaflokkurinn kynnti stefnumál sín á þingi sem haldið var í Tjarnarbíói í dag. Flokkurinn leggur höfuðáherslu á að vinda ofan af nýfrjálshyggju, brjóta upp kvótakerfið, stöðva spillingu, útrýma fátækt og fella elítustjórnmál.

 

Sósíalistaflokkurinn kynnti tilboð sitt um það sem flokkurinn kallar kærleikshagkerfið. Þar er lögð áhersla á að skattleggja hina ríku, endurheimta auðlindir, brjóta upp kvótakerfið og höggva strax á aflamarkskerfið og þá spillingu sem flokkurinn telur þrífast innan þess. Veita á gjaldfrjálsa grunnþjónustu og gera kerfisbreytingar til að vinna gegn loftslagsvánni ásamt að tryggja öryrkjum og öldruðum mannsæmandi fjáhag. 

Gunnar Smári Egilsson er formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.

„Það verður að taka völdin af auðvaldinu. Það verður að segjast. Það þarf að breyta völdunum í íslensku samfélagi þannig að ríkisvaldið verði rekið útfrá hagsmunum almennings. Það er grundvallaratriðið. Það er alveg sama hvað þig dreymir um. Ef þú ert með auðvaldið í fjármálaráðuneytinu þá gerist ekki neitt. Þannig að við verðum að ná fram þessum breytingum.“

Sósíalistaflokkurinn hafi ekki þríhyrndan valdastrúktúr heldur hafi hann margar miðjur og ólíkar stjórnir, sem allar eru jafn settar og sækja jafnt umboð til Sósíalistaþings.

Flokkurinn vill stöðva ofbeldisfaraldurinn og reisa 30 þúsund félagslegar íbúðir á næstu 10 árum. Þannig verði hægt að losa fólk undan okurleigu braskara sem nú sé við lýði.

„Við erum núna með ríkisvald sem skuldar kannski bara 30% af landsframleiðslu en við erum með alla innviði í ólestri. Við erum með öll grunnkerfi samfélagsins í ólestri. Við viljum frekar skulda mikið til lengri tíma hjá Seðlabankanum sem ríkið á líka og fjármagna hér uppbyggingu á grunnkerfum samfélagsins, innviðum og skaplegu lífi fyrir allan almenning.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV