BBC biðst afsökunar á að hafa týnt fötum myrtrar stúlku

19.09.2021 - 17:38
epa000380408 The first witness for the prosecution in the Michael Jackson child molestation case, English documentarian film maker Martin Bashir (L), walks with attorney Ted Boutrous to  Santa Barbara County Courthouse in Santa Maria, California, Tuesday, 01 March 2005.  EPA/BRENDAN MCDERMID
 Mynd: EPA - RÚV
Breska ríkisútvarpið hefur beðið móður stúlku afsökunar á að hafa aldrei skilað henni fötum sem sjónvarpsmaðurinn Martin Bashir fékk lánuð. Dóttir konunnar var myrt í Brighton árið 1986 og Bashir fékk fötin til að gera á þeim DNA-rannsókn fyrir sjónvarpsþátt sem hann var að vinna. Þátturinn var aldrei sýndur, rannsóknin aldrei gerð og móðirin fékk fötin aldrei aftur.

Þetta kemur fram á vef BBC.

Karen Hadeway og Nicola Fellows voru báðar níu ára þegar þær voru myrtar í Brighton árið 1986.  Morðin voru í fjölmiðlum kölluð Babes in the Wood og maður að nafni Russell Bishop var ákærður en sýknaður árið 1987. 

Fjölskyldur stúlknanna voru sannfærðar um sekt Bishop og árið 1991 hafði sjónvarpsmaðurinn Martin Bashir samband við Michelle Hadeway, móður Karenar, og óskaði eftir því að fá föt dóttur hennar lánuð. Tilgangurinn var að gera DNA-rannsókn fyrir sjónvarpsþáttinn Public Eye.

Sjónvarpsþátturinn um morðin var hins vegar aldrei sýndur og Bashir skilaði aldrei fötunum. „Ég treysti honum fyrir því síðasta sem ég átti eftir frá dóttur minni og það er skammarlegt að hann skuli aldrei hafa skilað þeim, beðið mig afsökunar eða haft samband,“ sagði Hadeway í viðtali við útvarpsþátt á BBC.

Talsmaður BBC baðst í dag innilegrar afsökunar á mistökunum og fyrir að geta ekki veitt Hadeway  nein svör við því hvað fór úrskeiðis. Áfram verði velt við hverjum steini í þeirri von að finna fötin. Umboðsmaður Bashir sagði fjölmiðlamanninn ekki vita hvar fötin væru.

Baráttan hjá fjölskyldum stúlknanna skilaði loks árangri árið 2018 en þá Bishop dæmdur fyrir morðin. Breska þingið  hafði þá fellt úr gildi lög sem bönnuðu að rétta mætti aftur yfir manni fyrir sama glæp. Þegar dómurinn féll sat Bishop þegar í fangelsi fyrir að reyna að myrða sjö ára stúlku. 

Bashir sagði nýverið starfi sínu lausu hjá BBC eftir að óháð rannsókn leiddi í ljós að hann hafði beitt blekkingum til að fá alræmt viðtal við Díönu prinsessu fyrir Panorama árið 1995.