Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vonast til að heimsins stærsta tré verði bjargað

Firefighters from the California Department of Forestry and Fire Protection's Placerville station battle the Sugar Fire, part of the Beckwourth Complex Fire, in Doyle, Calif., Friday, July 9, 2021. (AP Photo/Noah Berger)
 Mynd: AP
Hundruð slökkviliðsmanna sem glíma við skógarelda í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum eru bjartsýnir um að þeim takist að bjarga heimsins stærsta tré frá eldtungunum. Milljónir ekra hafa orðið skógareldum að bráð í sumar.

Tréð gengur undir heitinu Sherman hershöfðingi og er 83 metra há risafura sem stendur í skógi risanna, Giant Forest í Sequoia-þjóðgarðnum. Eldarnir ógna skóginum þar sem fimm stærstu tré heims standa, einhver þeirrar eru talin vera allt að þrjú þúsund ára gömul. 

Trén eru ekki þau hæstu í heimi, strandrisafurur geta orðið yfir 100 metra háar en rúmmál risafuranna er meira. Hershöfðinginn er líklega allt að 1.500 rúmmetrar og massi hans yfir 2.000 tonn. 

Á fimmtudaginn gripu slökkviliðsmenn til þess ráðs að vefja Sherman hershöfðinga í eldvarnarteppi úr áli svo halda mætti eldtungunum frá gildum stofninum. Á föstudag töldu slökkviliðsmenn sig hafa náð tökum á útbreiðslu eldsins.

Mark Garrett, samskiptastjóri slökkviliðsins á svæðinu, segir í samtali við AFP-fréttaveituna að undanfarna áratugi hafi verið búist við miklum skógareldum þar sem risafururnar standa og því hafi allir verið reiðubúnir þegar eldarnir blossuðu upp. 

Risatrén í Giant Forest laða að sér mikinn fjölda ferðamanna hvaðanæva úr heiminum á hverju ári. Þau hafa staðið af sér smærri skógarelda um aldir, enda börkur þeirra þykkur og neðstu greinarnar hátt frá jörðu.

Viðameiri eldar geta ógnað þeim, skriðið hærra upp eftir stofninum og læst sig í laufþykkni þeirra.