Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Um nítján þúsund hafa greitt atkvæði utan kjörfundar

18.09.2021 - 19:44
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Margt bendir til þess að þátttaka í utankjörfundaratkvæðagreiðslu fyrir komandi alþingiskosningar verði sú mesta frá upphafi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu segir tvöfalt fleiri hafa greitt atkvæði miðað við sama tíma árið 2017.

Um nítján þúsund manns hafa greitt atkvæði utan kjörfundar, nú þegar vika er til kosninga, þar af rúmlega þrettán þúsund hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er allt að tvöföldun hjá okkur hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigríður Karlsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu.

Er þetta metfjöldi?
„Já, miðað við það sem hefur verið þát er þetta meira en við höfum séð í alþingiskosningum áður en þetta er svipað eins og við erum að sjá þegar það eru forsetakosningar,“ segir Sigríður.

Hún segir kórónuveirufaraldurinn skýra þetta að hluta, fólk sé hrætt við að vera í sóttkví eða einangrun á kjördegi og þá hafi frambjóðendur hvatt kjósendur til að kjósa með þessum hætti.

Kjósendur sem verða í sóttkví eða einangrun á kjördegi verður heimilt að greiða atkvæði inni í bíl á sérstökum utankjörfundarstöðum, á höfuðborgarsvæðinu að Skarfagörðum átta.

Sigríður segir allt gert til að sjá til þess að sú kosning verði leynileg, tveir kjörstjórar mæti við heimili kjósenda, ýmist við glugga eða á stigagang og þá sé hægt að girða af svæði við glugga.