Tíu fórust fyrir mistök í drónaárás Bandaríkjahers

epa04893130 US soldiers secure the scene of a bomb explosion in Kabul, Afghanistan, 22 August 2015. At least 10 people, including an American contractor, have been killed in a suicide car bombing targeting foreign troops in Kabul, an Afghan medical worker says. Sixty-six others were injured in the attack.  EPA/JAWAD JALALI
 Mynd: EPA
Bandaríkjastjórn viðurkennir að drónaárás sem gerð var í Kabúl höfuðborg Afganistan 29. ágúst síðastliðinn hafi orðið tíu saklausum borgurum að bana, hjálparstarfsmanni og fjölskyldu hans.

Sjö börn dóu í árásinni, það yngsta tveggja ára. Árásin var gerð nokkrum dögum eftir að hryðjuverkaárás var gerð á flugvöllinn í borginni á meðan brottflutningi fólks þaðan stóð eftir valdatöku Talibana í landinu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því á vef sínum að leyniþjónustumenn höfðu fylgst með ferðum bíls hjálparstarfsmannsins Zamairi Akmadhi klukkustundum saman.

Talið var að hann hefði tengst við ISIS-K, Khorasan-héraðs arm samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Það sást til manna setja eitthvað það í farangursrými bílsins sem talið var vera sprengiefni.

Þegar árásin var gerð töldu Bandaríkjamenn að hann væri á leið á flugvöllinn í þeim tilgangi að sprengja bílinn í loft upp og valda þar með manntjóni miklu. Þegar á hólminn kom reyndist meinta sprengiefnið vera vatnsbrúsar.

Kenneth McKenzie hershöfðingi í Bandaríkjaher segir atburðinn vera hræðileg mistök en ættingjar Akmadhis segja hann og fjölskyldu hans hafa sótt um flutning til Bandaríkjanna og verið að bíða tilkynningar um að þau skyldu halda á flugvöllinn í Kabúl.